Akureyrarbær, í samvinnu við Hönnunarmiðstöð Íslands, efnir til hugmyndasamkeppni um nýtt kennileiti fyrir heimskautsbauginn í Grímsey. Kennileitinu er ætlað að vekja athygli á Grímsey sem ferðamannastað. Verðlaunaféð er 1.000.000 króna auk virðisaukaskatts og verður veitt fyrir þá tillögu sem valin verður í fyrsta sæti. Samkeppnin er opin hönnuðum, arkitektum og myndlistamönnum. Skilafrestur gagna er til 31. janúar 2014
Leitað er að myndrænu tákni fyrir eyjuna sem gæti orðið að aðdráttarafli í sjálfu sér og hægt er að nota á ólíka vegu t.d. við gerð minjagripa. Kennileitið þarf að styrkja Grímsey og stöðu hennar sem nyrsta odda Íslands, á heimskautsbaugnum. Unnið verður með vinningshafa að frekari hönnun og útfærslu tillögunnar. Samkeppnin fer fram samkvæmt samkeppnislýsingu, fylgigögnum og samkeppnisreglum Hönnunarmiðstöðvar Íslands.
Framkvæmdasjóður ferðamannastaða styrkir verkefnið.
Hagnýtar upplýsingar um samkeppnina - stiklað á stóru
Samkeppnin er opin menntuðum hönnuðum, arkitektum og myndlistamönnum. Ef teymi vinnur saman að tillögunni er nóg að einn úr teyminu uppfylli menntunarkröfur.
Tillögunni skal skilað á að hámarki fjórum A3 pappaörkum auk greinagerðar að hámarki 1000 orð. Keppendur skila inn þeim teikningum sem þeir telja útskýra verkið á sem skilmerkilegastan hátt. Gert er ýtarlega grein fyrir þessu í keppnislýsingu, sem hægt er hlaða niður hér fyrir neðan.
Dómnefnd skipa:
Tilnefndir af Akureyrarbæ:
• Logi Már Einarsson arkitekt, Akureyri. Formaður dómnefndar
• Friðþjófur Helgason ljósmyndari, Reykjavík
• Margrét Jónsdóttir leirlistakona, SÍM, Akureyri
Tilnefndir af Hönnunarmiðstöð:
• Ragnhildur Skarphéðinsdóttir landslagsarkitekt , FÍLA, Reykjavík
• Helga Jósepsdóttir vöruhönnuður HMÍ, Akureyri
Dómnefnd gerir skriflega grein fyrir vali. Dómnefnd er heimilt að hafna öllum tillögum.
Fyrirspurnarfrestur er til miðnættis 26. nóvember 2013. Fyrirspurnum skal beint í tölvupósti til trúnaðarmanns keppninnar, Þórhalls Kristjánssonar á
samkeppni@honnunarmidstod.is. Svör við fyrirspurnum verða birt á heimasíðu Hönnunarmiðstöðvar viku síðar eða 3. desember.
Skilafrestur samkeppnistillagna er til föstudagsins 31. janúar 2014 kl.12:00.
Samkeppnisgögn:
Keppnislýsing
Fylgiskjal 1 - Loftmynd af eyjunni með hæðarlínum
Fylgiskjal 2 - Yfirlitsmynd af keppnissvæði og umhverfi í mælikvarða 1:2500
Fylgiskjal 3 - Keppnissvæði með hindranaflötum vegna flugvallar í mælikvarða 1:500
Fylgiskjal 4 - Keppnissvæði án hindranaflata í mælikvarða 1:500
Spurningar og svör
1) Er ástæða fyrir því að staðurinn fyrir verkið er valinn þetta langt frá póllínunni?
Ekki er til „rétt“ staðsetning á heimskautsbaugnum því hann færist norður um u.þ.b. 15 sm á ári. Hann gekk inn á eyna snemma á 18. öldinni. Um aldamótin var hann nálægt Básum (og núverandi flugvallarbyggingu), í dag er hann nálægt Almannagjá. Baugurinn sveiflast á 20.000 árum frá 65,5°N til 68°N og í dag er hann staddur í ca. 66°33,5’N.
Skilgreining á heimskautsbaug er að norðan hans sest sólinn ekki á sumarsólstöðum, horft frá sjávarmáli, og ber að geta að ekki tekið tillit til ljósbrots. Þessi skilgreining getur verið ruglandi. Ljósbrotið veldur því að sólin hverfur ekki undir sjónarrönd dögum saman í kringum sumarsólstöður, jafnvel þótt athugandinn sé staddur tugi kílómetra sunnan baugsins. Raunar getur þessi staða komið upp í allt að 100 km fjarlægð ef farið er til fjalla.
Af þessum sökum hefur hann verið „negldur“ niður á ýmsum stöðum og þá oftast 66°32’ N eða 66°33’ N. Núverandi „brú“ yfir heimskautsbauginn í Grímsey er staðsett u.þ.b. á 66°32, 32’ N.
Af framansögðu má ráða að sú staðsetning er ekki betri/verri en hver önnur.
Auk þess er praktísk ástæða er fyrir að hafa táknið áfram þar sem það hefur verið, þar sem þar er gott aðgengi og nálægð við flugstöðina gerir farþegum sem stoppa í stuttan tíma færi á að komast að og sjá kennileitið.
2) Þar sem ég hef ekki komið til Grímseyjar langar mig til að vita hvort þar sé til staðar eitthvert náttúruhráefni sem hægt er að nýta, t.d. stuðlaberg eða stórt sjávarslípað grjót. Ef svo er, er þá til vélakostur svo að möguleiki sé að nálgast það og flytja?
Til er ýmislegt náttúruhráefni í Grímsey svo sem grjót, stuðlaberg, rekaviður o.fl. Leita þarf leyfis hjá sveitafélaginu (Akureyrarbæ) fyrir efnistökunni og er líklegt að það fáist ef ekki er um verulegt magn að ræða eða að því fylgi mikið rask á umhverfi.
Í Grímsey er verktaki sem er vel búinn tækjum og er best að hafa samband við hann beint varðandi kostnað og tækjabúnað. Vélaverkstæði Sigurður Bjarnason 8935875.