Í Hafnarborg sunnudaginn 10. nóvember kl. 15 fjallar Pétur H. Ármannsson arkitekt um Guðjón Samúelsson, arkitekt og húsameistara ríkisins til langs tíma. Pétur gerir sérstaklega skil þeim byggingum sem Guðjón teiknaði og finna má í Hafnarfirði, en þar á meðal eru Sankti Jósefsspítali, fyrsti áfangi Flensborgarskólans og elsti hluti húss Hafnarborgar, menningar- og listamiðstöðvar Hafnarfjarðar.
Erindi Péturs er hluti af dagskrá í tengslum við verkefnið Þinn staður – okkar umhverfi, opna vinnustofu um bæjarskipulag sem umgjörð daglegs lífs í Hafnarfirði. Í Sverrissal Hafnarborgar geta gestir nú kynnt sér stóran uppdrátt af bænum og jafnframt notað hann sem grunn fyrir eigin hugmyndir. Þar má einnig sjá eldri kort og uppdrætti, ljósmyndir, greinargerðir og ýmis önnur gögn sem tengjast bæjarskipulagi Hafnarfjarðar. Vinnustofan tengist yfirstandandi endurskoðun aðalskipulags Hafnarfjarðarbæjar og verður sú vinna kynnt og rædd. Þannig fá bæjarbúar og aðrir tækifæri til að kynna sér skýrslur og annað efni sem notast er við í skipulagsgerð og koma hugmyndum sínum á framfæri. Nánar um vinnustofuna og dagskrá í tengslum við hana hér.
Pétur H. Ármannsson er fæddur í Hafnarfirði 1961. Hann stundaði nám í arkitektúr í Kanada og Bandaríkjunum og lauk meistaraprófi í þeirri grein 1991. Pétur hefur meðal annars starfað sem deildarstjóri byggingarlistardeildar við Listasafn Reykjavíkur, gestakennari við Listaháskóla Íslands, arkitekt hjá Glámu–Kím arkitektum ehf. og er nú sviðsstjóri við Minjastofnun Íslands. Hann er höfundur greina, bóka, fyrirlestra og dagskrárefnis um íslenska byggingarlist á 20. öld.