Clara Åhlvik sýningarstjóri frá Röhsska safninu í Gautaborg heldur fyrirlestur og stýrir smiðju um „Vonda hönnun“ í Hönnunarsafni Íslands 26. nóvember kl. 14-17. Skráningu lýkur 15. nóvember, ekkert þáttökugjald.
Smiðjan varð til í tengslum við sýningu sem Clara stýrði sem nefndist Ond design. Megintilgangur sýningarinnar var að velta upp spurningum um hönnun og tilgang hennar í breiðara félagslegu samhengi heldur en áður hafði verið gert hjá Röhsska.
Safnið hélt nokkrar smiðjur í tengslum við sýninguna þar sem fólk úr ýmsum áttum kom saman og ræddi málefni illrar hönnunar út frá ýmsum vinklum. Smiðjurnar og umræðurnar sem mynduðust heppnuðust svo vel að ákveðið var að bjóða fleirum til borðsins.
Sýningin og smiðjan spyr spurninga eins og: Ef til er „góð“ hönnun ætti þá ekki líka að finnast „vond“ hönnun? Stundum er lögð mikil vinna og hugvitsemi í að hanna hluti þannig að þeir valdi sem mestum skaða, en svo eru dæmi um hluti sem notaðir eru í öðrum og mun verri tilgangi en þeim var upphaflega ætlaður.
Hönnun er afar stór hluti af lífi okkar. Hönnun fjallar ekki einungis um hluti sem hægt er að nota til góðra eða illra verka. Hönnun er líka hægt að nýta í félagslegu samhengi, eins og þegar gera þarf framleiðsluaðferðir markvissari, ódýrari og umfangsminni eða þegar skipuleggja á landsvæði fyrir framtíðina. Til dæmis hefur verið rætt um að borgarskipulag geti haft mikil áhrif á lífsgæði fólks.
Sýningin
Ond design tók m.a. fyrir hugmyndir um lúxus og ofgnótt, tísku og tengingu við nasisma. Minnt var á að útrýmingarbúðir, borgarhverfi, handjárn og færibönd voru öll hönnuð af einhverjum. Að lokum hnykkti sýningin á þeirri staðreynd að vestrænt samfélag byggist mikið til á því að kaupa, kaupa og kaupa aðeins meira! Spurningar sýningarinnar verða ræddar í
Hönnunarsafni Íslands í nóvember og vonandi heldur sú umræða áfram.
Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í smiðjunni eru beðnir um að senda póst á
thorasi@honnunarsafn.is.
Skráningu lýkur 15.nóv, sætafjöldi takmarkaður!
Þátttaka er ókeypis og léttar veitingar verða í boði.