Fréttir

13.11.2013

Yfir 200 umsóknir bárust í hönnunarsjóð

 

Frestur til að sækja um í hönnunarsjóð rann út mánudaginn 11. nóvember. Yfir 200 umsóknir bárust og alls var sótt um yfir 400 miljónir króna. Til úthlutunar eru rúmlega 40 miljónir, en þetta er fyrsta úthlutun sjóðsins. Hægt var sækja um styrki í fjórum flokkum; þróunar- og rannsóknarstyrki, verkefnastyrki, markaðs- og kynningarstyrki og ferðastyrki.

Hönnunarsjóður heyrir undir mennta- og menningarmálaráðuneyti og er tekjustofn hans framlag sem Alþingi ákveður á fjárlögum. Í ár er framlag til sjóðsins 45 milljónir króna og fer Hönnunarmiðstöð Íslands ehf. með umsýslu sjóðsins.

Megin hlutverk hönnunarsjóðs er að efla þekkingu, ásamt atvinnu- og verðmætasköpun á sviði hönnunar og arkitektúrs með fjárhagslegum stuðningi. Sjóðurinn styrkir jafnframt kynningar- og markaðsstarf erlendis sem stuðlar að auknum útflutningi íslenskrar hönnunar.

Stjórn hönnunarsjóðs metur styrkhæfi umsókna og ákveður afgreiðslu þeirra. Fimm manna stjórn er skipuð til þriggja ára í senn. Núverandi stjórn Hönnunarsjóðs skipa: Ólafur Mathiesen formaður, skipaður án tilnefningar, Íva Rut Viðarsdóttir varaformaður, Ástþór Helgason og Haukur Már Hauksson, öll tilnefnd af Hönnunarmiðstöð Íslands, ásamt Helgu Haraldsdóttur, tilnefnd af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

„Þetta magn umsókna undirstrikar þá þörf sem greinilega er fyrir hendi í hönnunarsamfélaginu þar sem þörfin fyrir aukna fjárfestingu er gríðarleg. Reynslan sýnir okkur að þetta á eftir að skila sér margfallt til baka til samfélagsins“, segir Ólafur Mathiesen, arkitekt og formaður stjórnar hönnunarsjóðs.

Nú hefst vinna við mat á umsóknum. Stefnt er að því að lokaniðurstaða og úthlutun fari fram um miðjan desember.

Nánari upplýsingar um hönnunarsjóð má finna á heimasíðu sjóðsins sjodur.honnunarmidstod.is.
















Yfirlit



eldri fréttir