Frá 5. – 28. nóvember verður opin vinnustofa í Hafnarborg um bæjarskipulag sem umgjörð daglegs lífs í Hafnarfirði. Boðið verður uppá fjölbreytta viðburðadagskrá þar sem leitast er við að efla umræðu og kynna forsendur skipulags, efnt verður til gönguferða um bæinn og haldnar verða kynningar um skipulagsmál Hafnarfjarðar. Fólk er hvatt til að nýta þetta einstaka tækifæri til að auka
skilning og þekkingu og koma skoðunum sínum á framfæri.
„Við hljótum að telja þá, sem á einhvern hátt stuðla að því að hús rísi af grunni, sérstaklega ábyrga aðila í menningarlífi þjóðarinnar. Við skulum samt ekki láta okkur detta í hug, að við getum skellt allri skuldinni á þá, því við erum öll ábyrg." Hörður Ágústsson, 1955
Þessi tilvitnun leiðir hugann að ábyrgð okkar allra á því að hafa skoðun á framkvæmdum og skipulagi. Er hægt að taka ábyrga afstöðu án þess að kynna sér málin til hlítar? Getur meðvitund og skilningur á ferli skipulags haft áhrif á gang mála?
Vinnustofan ber yfirskriftina
Þinn staður okkar umhverfi: Skipulag – verkefni í vinnslu. Í Sverrissal Hafnarborgar geta gestir kynnt sér stóran uppdrátt af bænum og jafnframt notað hann sem grunn fyrir eigin hugmyndir. Þar má einnig sjá eldri kort og uppdrætti, ljósmyndir, greinargerðir og ýmis önnur gögn sem tengjast bæjarskipulagi Hafnarfjarðar. Vinnustofan tengist yfirstandandi endurskoðun aðalskipulags Hafnarfjarðarbæjar og verður sú vinna kynnt og rædd. Þannig fá bæjarbúar og aðrir tækifæri til að kynna sér skýrslur og annað efni sem notast er við í skipulagsgerð og koma hugmyndum sínum á framfæri.
Vinnustofan verður opnuð þriðjudaginn 5. nóvember kl. 16. Umsjón með verkefninu hefur Magnea Guðmundsdóttir arkitekt en það er unnið í samstarfið við Skipulags- og byggingarsvið Hafnarfjarðarbæjar. Sjá nánar hér.
Dagskrá:
Fimmtudag 7. nóvember kl. 20
Staður í hjartanu
Samtal við arkitekta um heimabæinn Hafnarfjörð.
Föstudag 8. nóvember kl. 16
Alþjóðlegur dagur skipulags
Staður hluti heildar – fyrirlestrar og umræður
Hrafnkell Á. Proppé svæðisskipulagsstjóri höfuðborgarsvæðisins,
Borghildur Sturludóttir arkitekt.
Sunnudag 10. nóvember kl. 15
Í spor Guðjóns Samúelssonar í Hafnarfirði
Pétur H. Ármannsson arkitekt leiðir göngu um miðbæinn.
Fimmtudag 14. nóvember kl. 17
Endurskoðað aðalskipulag
Almennur kynningarfundur á vegum Skipulags- og
byggingarsviðs Hafnarfjarðarbæjar.
Sunnudag 17. nóvember kl. 15
Hafnarbærinn
Kristinn Aadnegard yfirhafnsögumaður leiðir göngu um hafnarsvæðið. Hvaða breytingar hafa orðið
í gegnum tíðina og hverjir eru möguleikar framtíðar.
Fimmtudag 21. nóvember kl. 20
Skipulag – forsendur og útfærsla
Bjarki Jóhannesson arkitekt og skipulagsstjóri
Hafnarfjarðar segir frá vinnu við aðalskipulagsgerð.
Sunnudag 24. nóvember kl. 15
Friðuð og falleg hús
Ganga þar sem friðuð hús í Hafnarfirði verða
skoðuð undir leiðsögn Sigríðar Bjarkar Jónsdóttur
byggingarlistfræðings og formanns skipulagsráðs.
Fimmtudag 28. nóvember kl. 20
Staður í hjartanu
Samtal við arkitekta um heimabæinn Hafnarfjörð.