Fréttir

28.10.2013

Vegglistaverk Theresu Himmer við Jórufell afhjúpað



Listasafn Reykjavíkur bauð íbúum í Breiðholti og öðrum borgarbúum á formlega afhjúpun á vegglistaverkinu Birtingarmynd eftir Theresu Himmer á fjölbýlishúsinu Jórufelli 2-12 í Breiðholti s.l. laugardag. Listasafn Reykjavíkur hefur umsjón með verkefninu en efnt var til lokaðrar samkeppni um val á listamönnum til að gera veggmyndir á 2 stóra gafla í Fellahverfi og voru það Teresa Himmer arkitekt og Sara Riel myndlistarkona sem voru valdar.


Borgarráð samþykkti tillögu borgarstjóra um verkefnið fyrr á þessu ári en þar kom m.a. fram að: „Listaverk í opinberu rými geti haft mjög jákvæð áhrif á umhverfið, fegrað það, vakið umræðu og skapað almennan áhuga á myndlist.“

Ákveðið var að láta gera tvær stórar veggmyndir á gafla tveggja hárra fjölbýlishúsa í Efra-Breiðholti. Listasafn Reykjavíkur hefur umsjón með verkefninu og efndi til lokaðrar samkeppni um val á listamönnum. Dómnefndin var skipuð fulltrúum frá hverfisráði Breiðholts, íbúasamtökunum Betra Breiðholti, hverfisráði Breiðholts, ungmennaráði Breiðholts, Félagsbústöðum, húsfélagi Asparfells og innkaupanefnd Listasafns Reykjavíkur.

Dómnefndin valdi listakonurnar Söru Riel og Theresu Himmer til að gera veggmyndirnar. Þær hafa mikla reynslu af sambærilegum verkefnum hérlendis og erlendis og hafa sýnt mikla færni við skipulag og framkvæmd þeirra.

Sara Riel vann í sumar að vegglistaverki á Asparfelli 2-12 og verður það tilbúið næsta vor.

Theresa Himmer hefur undanfarið unnið að verkinu á Jórufelli 2-12 sem nú verður afhjúpað. Hún ljósmyndaði steypusýni bakvið klæðningu hússins í gegnum smásjá og prentaði þau síðan á klæðninguna með tækni svipaðri silkiþrykki. Steypuagnirnar taka á sig fullkomlega óhlutbundin form við stækkunina og gætu t.d. verið loftsteinar, malargrjót eða plánetur.

Myndir frá viðburðinum má finna hér.
















Yfirlit



eldri fréttir