Fréttir

25.10.2013

Samkeppnisúrslit um skipulag Öskjuhlíðar



Landslag ehf., hlaut fyrstu verðlaun í hugmyndasamkeppni um skipulag Öskjuhlíðar sem afhent voru 24. október. Umhverfis– og skipulagssvið Reykjavíkurborgar, í samvinnu við Félag íslenskra landslagsarkitekta, FÍLA, efndi til hugmyndasamkeppninnar.

Tilgangurinn var að fá hugmyndir að framtíðarþróun Öskjuhlíðarsvæðisins sem stuðlar að fjölbreyttri notkun þess og aðlögun að aðliggjandi svæðum sem leitt geti til endurskoðunar á deiliskipulagi einstakra reita.

Í dómnefnd sátu: Björn Axelsson, landslagsarkitekt FÍLA, skipulagsfulltrúi Reykjavíkur sem var formaður dómnefndar, Þórólfur Jónsson, landslagsarkitekt FÍLA, deildarstjóri Náttúru og garða, Umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkur, Þorkell Sigurlaugsson, framkvæmdastjóri fjármála- og fasteignareksturs Háskóla Reykjavíkur, Berglind Guðmundsdóttir, landslagsarkitekt FÍLA, Hildigunnur Haraldsdóttir, arkitekt FAÍ, Trúnaðarmaður dómnefndar var Auður Sveinsdóttir, landslagsarkitekt FÍLA og ritari dómnefndar var Hlín Sverrisdóttir, landslagsarkitekt FÍLA og skipulagsfræðingur SFFÍ.

1. verðlaun kr. 2 milljónir hlaut tillaga Landslags ehf.
Þráinn Hauksson landslagsarkitekt FÍLA, Sif Hjaltdal Pálsdóttir landslagsarkitekt FÍLA, Svava Þorleifsdóttir landslagsarkitekt FÍLA. Aðstoð: Baldur Helgi Snorrason BA í arkitektúr

Í niðurstöðu dómnefndar segir að tillagan sé metnaðarfull með skýrri hugmynd þar sem geislar út frá Perlunni tengja hana við Öskjuhlíðina og nærumhverfið, þannig að svæðið verði öruggara og aðgengilegra öllum. Bungulaga form Öskjuhlíðar er eins konar „andrými“ og felur í sér það viðfangsefni að ná saman svæðum sem snúa hvert í sína áttina.

Í tillögunni er lögð áhersla á að skilgreina auðratanlegt net stíga um Öskjuhlíðina og að henni. Ein aðalhugmynd tillögunnar er “Perlufestin” sem er greiðfær, nánast lárétt hringleið sem þræðir saman áhugaverða staði, ásamt því að auðvelda aðgengi fyrir alla. Hugmyndin er áhugaverð.

Í tillögunni er lagt til að söguminjar verði verndaðar og gert hærra undir höfði með merkingum og fróðleiksskiltum. Við umhirðu svæðisins verði gróðursamfélög þróuð í átt að vistfræðilegum fjölbreytileika. Lögð er áhersla á að þróa austurhluta skógarins að Fossvogskirkjugarði yfir í hæfilega gisinn birkiskóg með stórum rjóðrum, þar sem blómgróður, víðikjarr og stök reynitré fá notið sín með tilheyrandi fuglalífi. Lögð er áhersla á að engið vestan Perlunnar haldi sér sem slíkt. Höfundar tillögu sýna mikið næmi fyrir gróðri og náttúruupplifun.

2. verðlaun 1,25 milljón króna tillaga Garðars Snæbjörnsson, arkitekt FAÍ.
Aðstoð Tamara Kocan skipulagsfræðingur og Mark Smith arkitekt.

Í niðurstöðu dómnefndar segir að í tillögunni sé mikil áhersla lögð á vestursvæðið, þar sem hugað er vel að hugsanlegri þróun byggðar til vesturs. Lögð til einföldun á núverandi gatna- og göngustígakerfi.

Innkaup 500 þúsund krónur hlýtur tillaga Guðnýar Möru Guðlaugsdóttur, landslagsarkitekt FÍLA


Í niðurstöðu dómnefndar segir að megin hugmynd tillögunnar felist í að mynda línur í landslaginu út frá gömlum fluglínum og mynda svæði sem fái mismunandi meðhöndlun.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Reykjavíkurborgar, hér.
















Yfirlit



eldri fréttir