Fréttir

2.10.2013

Ullarteppi Elívoga á hönnunarvikunnni í Peking



Ullarteppi frá Élivogum eru til sýnis á hönnunarvikunni í Peking í ár, en hún stendur yfir 26. september til 3. október. Teppin koma frá íslenska fyrirtækinu Élivogum en á vegum þess hafa iðnhönnuðurinn Sigríður Ólafsdóttir og textíllistamaðurinn Sigrún Lara Shanko hannað og búið til teppi frá árinu 2012 en fyrirtækið var stofnað 2011. Élivogar nýta gjarnan form í íslenskri náttúru eins og ár, stuðlaberg og hraun sem innblástur fyrir hönnun teppanna.


Hönnunarvikan í Peking er alþjóðleg hönnunarkynning sem fer fram á nokkrum stöðum í borginni. Sýningin skiptist í sjö hluta og þar á meðal eru skipulagðar gönguleiðir milli einstakra sýninga í ákveðnum borgarhlutum. Þjóðhátíðardagur Alþýðulýðveldisins Kína var 1. október og honum fylgja almennir frídagar. Nota þá margir tækifærið til að skoða sýningar á hönnunarvikunni. Árið 2009 var haldin alþjóðleg hönnunarráðstefna í Peking sem síðar þróaðist yfir í almennar sýningar og kynningar á ársfresti. Hönnunarvikan í Peking er nú haldin í þriðja sinn.

Ullarteppi Élivoga eru til sýnis í Dashilar sem er hefðbundið lágreist hverfi í miðborg Peking. Mikil atvinnustarfsemi er í hverfinu og þar er m.a. reynt að halda við hefðbundnum kínverskum arkítektúr með því að gera upp gömul hús og breyta þeim í hönnunarverslanir. Sýning Élivoga á hönnunarvikunni er í gamalli verksmiðju sem áður framleiddi batterí en er nú nýtt sem samkomustaður og sýningarsalir. Á einum gafli hússins er myndverk eftir Guðrúnu Kristjánsdóttur. Íslenska sýningin í ár er samstarfverkefni fyrirtækisins, Hönnunarmiðstöðvar og sendiráðsins í Peking.
















Yfirlit



eldri fréttir