Fréttir

1.10.2013

Grein | Björg í bú

 
Í gær hófst nýr kafli í hönnunarsögu íslendinga þegar hönnunarsjóður stjórnvalda kallaði eftir umsóknum í fyrsta sinn. Hönnunarsjóður er fyrsti opinberi sjóður sinnar tegundar hérlendis.

Hönnunarsjóður var stofnaður á þessu ári og heyrir undir mennta- og menningarmálaráðuneytið. Hlutverk sjóðsins er að efla þekkingu, atvinnu- og verðmætasköpun á sviði íslenskrar hönnunar og arkitektúrs. Til þessa hafa hönnuðir haft fá tækifæri til að sækja fé í opinbera sjóði þótt arðsemi hönnunar og arkitektúrs verði ekki véfengd.

Fjármagn hönnunarsjóðs árið 2013 er tryggt. Framtíðarhorfur sjóðsins eru óræðari en munu skýrast þegar fjárlög verða samþykkt á haustþingi. Þar mun reyna á samvinnu þingflokka. Hönnunargeirinn ber þverfaglegri samvinnu gott vitni. Vonandi er að vel takist til á Alþingi í ár.

Á fyrsta starfsári hönnunarsjóðsins mun hann njóta umsýslu Hönnunarmiðstöðvar og hefur sjóðsstjórn góðar væntingar til þeirrar samvinnu. Hönnunarmiðstöð hefur unnið geysimikið starf við að hlúa að kjarnmiklum gróanda íslenskrar hönnunar. Hún hefur lyft Grettistaki við að koma hönnuðum og afurðum þeirra á framfæri innanlands sem erlendis.

Kraftur og dugur hönnuða hefur verið kærkominn áhrifavaldur í að auka verðmæti og bæta lífsgæði undanfarin ár, þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Nú styttist í að hönnunarstefna stjórnvalda verði birt, en hún endurspeglar mikilvægi hönnunar í öllum þáttum atvinnulífsins. Það ríður á að þeirri stefnu verði fylgt eftir á öllum sviðum stjórnsýslunnar. Fólkið í hönnunargeiranum mun ekki láta sitt eftir liggja þegar kemur að því að vinna með stjórnvöldum við að efna sinn hlut.

Með frumkvæði og nýsköpun getum við skapað íslensku samfélagi fjölbreytt lífsviðurværi af auðlindum hugans. Íslenskir hönnuðir hafa fyrir löngu sýnt að þeir hafa bæði dug og getu til að marka spor á breiðstrætum hönnunar og arkitektúrs heima og heiman. Hönnunarsjóður getur haft úrslitaáhrif á upphaf og þróun nýsköpunarverkefna og afkomu og vöxt sjálfstæðra hönnuða og fyrirtækja. Með öflugum vexti og viðgangi hönnunar og arkitektúrs munu stjórnvöld, þegar fram líða stundir, geta sótt þjóðinni björg í bú. Hönnunarsjóður er því mikið fagnaðarefni.

Ólafur Mathiesen arkitekt og formaður stjórnar hönnunarsjóðs. Greinin birtist í Fréttablaðinu, 1. október 2013, bls. 14.

















Yfirlit



eldri fréttir