Fréttir

4.10.2013

Nýr hönnunarsjóður hefur starfsemi



Mánudaginn 30. september hóf nýr hönnunarsjóður starfsemi en sjóðurinn var stofnaður af mennta- og menningarmálaráðuneyti í febrúar. Við úthlutun sjóðsins verður lögð áhersla á fjóra flokka: þróunar- og rannsóknarstyrki, verkefnastyrki, markaðs- og kynningarstyrki og ferðastyrki. Umsóknarfrestur rennur út 11. nóvember 2013. Sjóðinn er ekki að finna í fjárlögum fyrir árið 2014 en fjármagn hans fyrir árið 2013 er tryggt.

Hönnunarsjóður heyrir undir mennta- og menningarmálaráðuneyti og er tekjustofn hans árlegt framlag sem Alþingi ákveður á fjárlögum. Í ár er framlag til sjóðsins 45 milljónir króna og fer Hönnunarmiðstöð Íslands ehf. með umsýslu sjóðsins.

Megin hlutverk hönnunarsjóðs er að efla þekkingu, ásamt atvinnu- og verðmætasköpun á sviði hönnunar og arkitektúrs með fjárhagslegum stuðningi. Sjóðurinn styrkir jafnframt kynningar- og markaðsstarf erlendis sem stuðlar að auknum útflutningi íslenskrar hönnunar.

„Með stofnun hönnunarsjóðs hefur verið stigið mikilvægt skref af hálfu ríkisvaldsins til viðurkenningar og eflingar hönnunar í íslensku atvinnulífi. Okkur, sem erum í forsvari fyrir Hönnunarmiðstöð Íslands, er það mikið kappsmál að samfélagið fái sem best notið þess mikla mannauðs sem býr í góðum hönnuðum og arkitektum“, segir Borghildur Sturludóttir, arkitekt og stjórnarformaður Hönnunarmiðstöðvar.

Stjórn hönnunarsjóðs metur styrkhæfi umsókna og ákveður afgreiðslu þeirra. Fimm manna stjórn er skipuð til þriggja ára í senn. Núverandi stjórn Hönnunarsjóðs skipa: Ólafur Mathiesen formaður, skipaður án tilnefningar, Íva Rut Viðarsdóttir varaformaður, Ástþór Helgason og Haukur Már Hauksson, öll tilnefnd af Hönnunarmiðstöð Íslands, ásamt Helgu Haraldsdóttur, tilnefnd af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

„Við mat á umsóknum mun stjórn hönnunarsjóðs líta sérstaklega til gæða og stöðu hugmyndarinnar eða verkefnisins, faglegs bakgrunns umsækjanda, fjárhagsgrundvallar verkefnisins og svo gildi og mikilvægi verkefnis til eflingar íslenskrar hönnunar og arkitektúrs“, segir Ólafur Mathiesen, arkitekt og formaður stjórnar hönnunarsjóðs.

Opnað verður fyrir móttöku umsókna mánudaginn 30. september kl. 16:15 að viðstöddum mennta- og menningarmálaráðherra. Umsóknarfrestur rennur út 11. nóvember 2013.

Nánari upplýsingar um hönnunarsjóð má finna á heimasíðu sjóðsins sjodur.honnunarmidstod.is
















Yfirlit



eldri fréttir