Harpa, tónlistar- og ráðstefnuhús Reykjavíkur vann til verðlauna sem besta opinbera byggingin á árlegri verðlaunahátíð alþjóðlegra samtaka arkitekta í Evrópu (LEAF). Harpa hefur sópað til sín verðlaunum á undanförnum misserum, skemmst er að minnast Mies van de Rohe verðlaunanna 2013 sem eru ein virtustu byggingaverðlaun heims.
Harpa er verk arkitektastofu Henning Larsen í Danmörku, í samvinnu við Batteríið á Íslandi og Stúdíós Ólafs Elíassonar í Berlín.
Stofnað var til verðlaunanna, sem nefnast The Emirates Glass LEAF Awards árið 2001 og eru þau veitt á hverju ári arkitektum sem hafa nýjungar og framsækni að leiðarljósi í sinni hönnun. Verðlaunaðar eru byggingar þar sem hönnunin er talin marka þáttaskil í byggingarlist komandi kynslóða.
Í umsögn dómnefndar segir að Harpa sé sláandi bygging sem umbreyti og blási nýju lífi í Reykjavíkurhöfn, auk þess að skapa nýja tengingu milli hafnar og borgar. Glerhjúpur Ólafs Elíassonar, sem innblásinn sé af íslensku landslagi, endurkasti birtu frá borgarljósunum, hafi og himni á heillandi hátt. „Byggingin var enn í framkvæmd þegar efnahagskreppan skall á og fjármögnun varð uppurinn en ríkisstjórn Íslands ákvað af djörfung að fjárfesta í byggingunni vegna þess að bókmenntir, menning og tónlist eru þættir sem Íslendingar vilja styðja við,“ segir í umsögn dómnefndar.
Þá segir að Harpa hagnist af ráðstefnuaðstöðunni sem þar sé samhliða tónlistarsölunum. Byggingin sameini íslensk auðkenni frá öllum hliðum og sé jafnframt einstakt dæmi um aðkomu listamanns í samvinnu við framkvæmdaraðila frá byrjun.
Auk Hörpu voru fjórar aðrar opinberar byggingar tilnefndar til verðlaunanna í þeim flokki. Þar á meðal voru sjávarsafnið Blue Planet Aquarium í Kaupmannahöfn, risagarðhýsin Gardens by the Bay í Singapúr og margmiðlunarsafnið tMédiathèque Mont de Marsan í París. Verðlaunin voru afhent í London við hátíðlega athöfn í London 20.september 2013.
Verðlaunin eru enn ein rósin í hnappagatið fyrir Hörpu. Skemmst er að minnast
Mies van de Rohe verðlaunanna 2013 og
Norrænu arkitektaverðlaunin fyrir best hannaða almenningsrýmið 2011. Einnig má geta þess að Harpa er komin á stuttlista
WAN AWARDS 2013 í flokkinum Performing Spaces.
Nánari upplýsingar um LEAF verðlaunin má finna hér.