Fréttir

25.9.2013

Sýning | Lífið í Vatnsmýrinni í Vatnsmýrinni



Sem framhald af sýningunni „Lífið í Vatnsmýrinni"sem sett var upp í Norræna húsinu 2012 hafa nú verið settar upp sex innsetningar víðsvegar um mýrina þar sem gestum gefst kostur á að kynnast mýrinni betur og fræðast um votlendið.

Í Vatnsmýrinni er nú hægt að upplifa lífríkið á nýjan hátt, skyggnast undir yfirborð vatnsins, fá yfirsýn yfir ferðir fuglanna og hlusta á tóna mýrarinnar.

Á sýningunni „Lífið í Vatnsmýrinni" í Norræna húsinu árið 2012, var fuglunum, mannlífiinu og gróðrinum þar gerð skil. Sýningin var liður í samstarfi Norræna hússins, Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar við að endurheimta votlendið í Vatnsmýrinni og friðinn í varplandinu.

Innsetningarnar eru eftirfarandi:

1. Fræðsluskilti við Hringbraut þar sem m.a. má lesa um þróun og virkni Vatnsmýrarinnar og samskiptum mannsins og mýrarinnar í gegnum tíðina. Skiltið sýnir líka hvort mýrin sé opin fyrir vegfarendum eða lokuð. Á varptíma er brú yfir síkið fjarlægt og gönguleiðir því lokaðar.

2. Fræðsluskilti
við Norræna húsið segir frá gróðri sem vex í Vatnsmýri og fuglum sem verpa þar.

3. Sjónpípan leyfir þér að skyggnast undir yfirborð vatnsins og kanna lífríkið, gróður eða rusl sem þar er.

4. Hásætið gefur þér yfirsýn. Þar er hægt að virða fyrir sér hvernig landið liggur, ferðir fuglanna og flugvélanna.

5. Hlustunarstóll þar sem þér er boðið að setjast, horfa yfir Hústjörnina og hlusta á kvak, krunk og garg. Hlustunarpípur magna upp hljóð sem annars færu kannski fram hjá þér.

6. Hringrásarskilti útskýrir samhengi ólíkra þátta í mýrinni. Með því að snúa skiltinu er hægt að lesa um hvern mánuð ársins og uppgötva hringrás mýrarinnar.

Hönnuðir innsetninganna eru Brynhildur Pálsdóttir hönnuður og Magnea Þ. Guðmundsdóttir arkitekt. Grafísk hönnun var í höndum Jónasar Valtýssonar og Ármanns Agnarssonar.

Lagt var uppúr að koma flóknum upplýsingum á framfæri á lifandi og einfaldan hátt. Skiltin eru einskonar klippimynd þar sem ólík efni og aðferðir eru notaðar. Ljósmyndir, texti og teikningar eru ýmist handmáluð beint á viðargrind eða prentað, klippt og límt á. Áhorfandinn nálgast upplýsingar á ólíkan hátt og verður þáttakandi í upplifun svæðisins í gegnum innsetningarnar.

Verkefnið var veglega styrkt af Náttúruverndarsjóði Pálma Jónssonar stofnanda Hagkaups.

Ljósmyndir: Mira Mykkanen


























Yfirlit



eldri fréttir