Sunnudaginn 15. september kl. 14 verður Dr. Arndís S. Árnadóttir hönnunarsagnfræðingur með leiðsögn um sýninguna Óvænt kynni. Innreið nútímans í íslenska hönnun í Hönnunarsafni Íslands.
Á sýningunni er sjónum beint að nokkrum þáttum í komu módernismans í íslenska híbýlamenningu frá því um 1930 og fram yfir 1980. Á þessu tímabili urðu miklar breytingar á íslenskum heimilum eins og sjá má til dæmis í húsgögnum, textílum og lampagerð. Í skjóli hafta á sjötta og sjöunda áratungum náði íslensk húsgagnaframleiðsla ákveðnum hápunkti og hönnuðir mörkuðu sér þar skýrt hlutverk.
Meginþorri sýningargripa er úr safneign Hönnunarsafnsins en einnig koma til ný og óvænt kynni við hluti sem varðveist hafa í heimahúsum og gefa sýningunni aukið vægi. Skoðuð eru mörk hefða og nútíma í húsgagnagerð, tilkoma nýrra efna, líkt og krómaðs stáls, sem og notkun járns og nýstárlegra þráða. Vakin er athygli bæði á starfsemi nokkurra vefstofa þar sem handofin áklæðagerð dafnaði í undanfara verksmiðjuframleiðslu og frumkvöðlum í textílþrykki á áttunda áratugnum.
Arndís sem er sýningarstjóri sýningarinnar ásamt Elísabetu V. Ingvarsdóttur, er sjálfstætt starfandi fræðimaður og sýningarstjóri. Hún varði doktorsritgerð sína, Nútímaheimilið í mótun: fagurbætur, funksjónalismi og norræn áhrif á íslenska hönnun 1900−1970 við sagnfræði-og heimspekideild Háskóla Íslands í ágúst 2011. Arndís hefur haldið fyrirlestra og birt fjölbreytt efni á erlendum og innlendum vettvangi. Hún hefur stjórnað sýningargerð um bókverk listamanna, list-og handavinnu kvenna, handiðnað og hönnun fyrir opinber söfn og sýningasali.
Verið velkomin!
Nánari upplýsingar á
www.honnunarsafn.is