Norræna húsið í Reykjavík fagnar 45 ára afmæli 28. ágúst. Í tilefni af þessum tímamótum kemur bókin Hræringar út þar sem fjallað er um starfsemi hússins undanfarin sjö ár og íslenskt menningarumhverfi á umbrotatímum þessara liðnu ára.
Norræna húsið tekur þátt í öllum helstu menningarviðburðum landsins, s.s. RIFF-alþjóðlegri kvikmyndahátíð, Listahátíð í Reykjavík, Iceland Airwaves, Jazzhátíð í Reykjavík, Bókmenntahátíð í Reykjavík, Mýrinni-barnabókmenntahátíð, List án landamæra og Hönnunarmars. Stærsti viðburður Norræna hússins til þessa er þó sirkushátíðin Volcano sem fór fram í sjö sirkustjöldum 4.-14. júlí. Hátíðina sóttu um 25.000 manns.
Efni bókarinnar er þó ekki upptalning á menningarviðburðum heldur velta höfundar efnis fyrir sér hlutverki hússins á sviði bókmennta, tónlistar og hönnunar en einnig er það umhverfi sem húsið er í til umfjöllunar. Forstjóri Norræna hússins þessi ár hefur verið svíinn Max Dager. Skilyrði er að forstjóri hússins komi frá hinum Norðurlöndunum og er ráðning hans ætíð tímabundin. Ráðningartímabili Max Dagers lýkur á næsta ári og leit að nýjum forstjóra hefst strax í lok þessa árs.
Höfundar efnis í bókinni eru Steinunn Sigurðardóttir, fatahönnuður, Ari Trausti Guðmundsson, jarðfræðingur, Andri Snær Magnason, rithöfundur, Gerður Kristný, rithöfundur og ljóðskáld, Einar Már Guðmundsson, rithöfundur, Sjón, rithöfundur, Dominique Plédel Jónson, blaðamaður á Gestgjafanum, og Jónas Sen, tónlistarmaður.
Ármann Agnarsson sá um grafíska hönnun og Björn Kozempel um ritstjórn.
Bókin fæst í verslun Norræna hússins og verður seld með eldri bók sem kom út 1999 og tekur á byggingarsögu þess og bakgrunni. Bækurnar tvær verða á sérstöku tilboðsverði en hægt verður að kaupa Hræringar líka eina og sér.