Fréttir

10.8.2013

Ráðstefna | Í byrjun tveggja alda



Stofnun Rögnvaldar Á Ólafssonar og samstarfsaðilar boða til ráðstefnu í haustbyrjun þar sem hugsjónir aldamótakynslóðarinnar verða bornar saman við samtímann og þá framtíðarsýn sem við okkur blasir. Ráðstefnan fer fram á Hrafnseyri í Arnarfirði, á fæðingarstað Rögnvaldar að Núpi í Dýrafirði og í Edinborgarhúsinu á Ísafirði 6. og 7. september 2013.

Dagskráin samanstendur af fyrirlestrum, stuttum kynningum, pallborðsumræðum og samræðuhópum. Hún er hugsuð fyrir fagfólk jafnt sem almenning og verður lögð áhersla á að þátttakendur nái að hittast og ræða saman utan dagskrár með því m.a. að taka þátt í skoðunarferðum og hátíðardagskrá að Núpi.

Leitast verður við að fanga stemmninguna nú á tímum og bera saman við andrúmsloft og viðhorf sem réðu ríkjum hjá aldamótakynslóðinni. „Í skjóli‟ hógværa meistarans Rögnvaldar, verður manngert umhverfi á okkar norðlægu slóðum skoðað og skilgreint í samtíð og nálægri fortíð og gerð tilraun til að leggja drög að endurskoðaðri framtíðarsýn.

Fyrirlesarar og samræðustjórar verða m.a. arkitektar, heimspekingar, mannfræðingar, sagnfræðingar, rithöfundar og samfélagsrýnar. Meðal fyrirlesara á ráðstefnunni verða eftirtaldir (með fyrirvara um breytingar):
Guðmundur Hálfdánarson sagnfræðingur og prófessor
KjartanÁrnason arkitekt
Jóhann Páll Árnason prófessor emeritus í samfélagskenningum
Pétur H Ármannsson arkitekt og fræðimaður
Hjálmar Sveinsson heimspekingur
Ólína Þorvarðardóttir þjóðfræðingur
Sigrún Birgisdóttir arkitekt og deildarforseti hönnunar- og arkitektúrdeildar LHÍ
Júlíana Gottskálksdóttir listfræðingur
Valdimar J Halldórsson mannfræðingur
Páll Skúlason heimspekingur og prófessor
Sigurður Pétursson sagnfræðingur
Egill Helgason þáttastjórnandi m.m. Elísabet Gunnarsdóttir arkitekt
Dagný Arnarsdóttir umhverfisfræðingur
Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur og samfélagsrýnir
Sigfús Guðfinnsson bakari
Peter Weiss norrænufræðingur
Borghildur Sölvey Sturludóttir arkitekt

Rögnvaldur Ólafsson var fæddur á Ytrihúsum í Dýrafirði 1874 og ólst upp á Ísafirði. Hann lést úr berklum á Vífilsstöðum árið 1917. Rögnvaldur lagði stund á nám í arkitektúr fyrstur Íslendinga í Kaupmannahöfn og varð merkilegur brautryðjandi í íslenskri byggingarlist. Hann var afkastamikill á stuttum ferli í starfi sem síðar varð embætti Húsameistara ríkisins. Hann teiknaði mörg prýðileg hús og opinberar byggingar sem reistar voru víða um land og ber þar hæst Vífilsstaðaspítala. En auk þess teiknaði hann 25 kirkjur, sumar þeirra perlur í íslenskri byggingarlist.

Stofnun Rögnvaldar Á Ólafssonar hefur það að markmiði að hvetja til rannsókna á sviði arkitektúrs, hönnunar, umhverfis- og skipulagsmála og skyldra greina. Einnig hefur stofnunin á stefnuskrá sinni að stuðla að nýsköpun með því m.a. að standa fyrir sumarskóla og námskeiðum og halda málþing með reglulegu millibili þar sem horft er til framtíðar og nýjungar í hönnun og arkitektúr eru kynntar og ræddar. Lögð verður sérstök áhersla á hugmyndir þar sem hagsmunir heildarinnar og ábyrgð mannsins á umhverfi sínu og náttúrunni eru hafðar að leiðarljósi.


Nánari upplýsingar má nálgast á kynningarsíðu ráðstefnunnar hér.
















Yfirlit



eldri fréttir