Fréttir

6.8.2013

Sýningarleiðsögn | Óvænt kynni - Innreið nútímans í íslenska hönnun



Fimmtudaginn 15. ágúst kl 12:30 mun fara fram leiðsögn á ensku um sumarsýningu Hönnunarsafns Íslands “ Óvænt kynni”.

Á sumarsýningu Hönnunarsafns Íslands er sjónum beint að nokkrum þáttum í komu módernismans í íslenska híbýlamenningu frá því um 1930 og fram yfir 1980. Meginuppistaða sýningarinnar er safnkostur safnsins en einnig er skyggnst inn í geymslur annarra safna og í heimahús þar sem óvænt kynni við hluti og sögur af hönnun komu oft á óvart. Slíkir fundir eiga erindi við samtímann.

Á sýningunni má líta bæði vel þekkta hönnunargripi, einkum húsgögn sem öðlast hafa sess með þjóðinni sem tímamótaverk, en einnig óvænta hluti sem greina má jafnt í verkum nafnlausra smiða sem og framsækinna húsgagna- og textílhönnuða á síðustu öld. Staldrað er við gripi sem varðað hafa veginn og minna jafnframt á að samtímahönnun bergmálar oft það sem á undan kom og að „margt kann öðru líkt að vera“.

Nánar um sýninguna má finna á heimasíðu Hönnunarmiðstöðar hér.

Sýningin Óvænt kynni stendur til 13. október 2013 í Hönnunarsafni Íslands.
















Yfirlit



eldri fréttir