Rektor Listaháskóla Íslands hefur ráðið í fjórar stöður lektora við
hönnunar- og arkitektúrdeild skólans. Stöðurnar eru á sviðum
arkitektúrs, vöruhönnunar, grafískrar hönnunar og fatahönnunar. Með
þessum ráðningum fjölgar akademískum stöðugildum við deildina auk þess
sem ráðningarnar stuðla að eflingu rannsókna og nýsköpunar á sviði
hönnunar og arkitektúrs.
Eftirfarandi aðilar voru ráðnir:
Massimo Santanicchia hefur verið ráðinn í stöðu lektors í arkitektúr við hönnunar- og arkitektúrdeild skólans. Massimo hefur verið stundakennari við Listaháskólann frá 2004, þar sem hann hefur kennt yfir 30 námskeið, leiðbeint fjölda nemenda þvert á faggreinar auk þess að taka þátt í uppbyggingu og þróun náms í arkitektúr. Í álitsgerð dómnefndar kemur fram að Massimo hafi góða yfirsýn yfir strauma og stefnur í faginu, en hann hefur starfað sem arkitekt, skipulagshönnuður, ráðgjafi og verkefnisstjóri á sviði arkitektúrs og skipulagsmála í Reykjavík, Jerúsalem, London og Mílanó.
Linda Björg Árnadóttir hefur verið ráðin í stöðu lektors í fatahönnun. Linda hefur starfað sem aðjúnkt og fagstjóri námsbrautar í fatahönnun við Listaháskóla Íslands frá árinu 2000. Hún hefur byggt upp nám í fatahönnun á háskólastigi hér á landi, stjórnað námsbrautinni frá upphafi og útskrifað um 100 nemendur. Í álitsgerð dómnefndar kemur fram að hún hafi byggt upp víðtækt tengslanet fyrir nemendur skólans í iðnaðinum hérlendis og erlendis og gætt þess að þeir hljóti starfsreynslu hjá fremstu fyrirtækjum heims.
Garðar Eyjólfsson hefur verið ráðinn í stöðu lektors í vöruhönnun. Í starfinu felst að Garðar fari með fagstjórn námsbrautar í vöruhönnun, auk þess að sinna kennslu, rannsóknum og nýsköpun. Í álitsgerð dómnefndar kemur fram að Garðar hafi áunnið sér góðan skilning á tengslum akademísks og faglegs starfs, rannsókna, hönnunar og kennslu, þrátt fyrir stuttan starfsferil. Hann hafi skýra sýn á þróun háskólanáms í vöruhönnun og búi yfir yfirgripsmikilli þekkingu á straumum og stefnum í hönnun.
Birna Geirfinnsdóttir hefur verið ráðin í stöðu lektors í grafískri hönnun við hönnunar- og arkitektúrdeild skólans. Í starfinu felst að Birna fari með fagstjórn námsbrautar í grafískri hönnun, auk þess að sinna kennslu, rannsóknum og nýsköpun. Í álitsgerð dómnefndar kemur fram að Birna hafi umtalsverða reynslu af kennslu og mótaða sýn á kennsluhætti, en hún hefur verið stundakennari við Listaháskóla Íslands allt frá útskrift við skólann. Þá hafi hún sterka sérhæfða þekkingu á letri og bókagerð og að verk hennari beri vitni um rannsóknarvinnu og vandvirkni.
Þau taka öll við starfi þann 1. ágúst næstkomandi.
Nánar um lektorana má finna á heimasíðu Listaháskólans
hér.