Opin samkeppni um sýningu í gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á Kirkjubæjarklaustri verður auglýst með haustinu. Þar gefst hönnuðum tækifæri á að túlka síkvika náttúru vestan Vatnajökuls. Tilvalið er fyrir áhugasama að nýta sumarið til að skoða sig um á vettvangi.
Meginmarkmið sýningarinnar er að miðla fróðleik og upplifun um síbreytilega náttúru við vesturjaðar Vatnajökuls og dramatísk átök jarðelda, jökuls og mannlífs á svæðinu.
Svæðið sem sýningin spannar er m.a. vettvangur Skaftárelda 1783–1784 og Eldgjárgossins 934+ en þau voru mestu flæðigos síðustu árþúsunda og gríðarlegar náttúruhamfarir sem höfðu áhrif á mannlíf um allt norðurhvel Jarðar.
Í janúar síðastliðnum undirritaði umhverfisráðherra samning við Framkvæmdasýslu ríkisins um uppbyggingu þekkingarseturs á Kirkjubæjarklaustri. Þekkingarsetrið mun hýsa gestastofu og skrifstofu Vatnajökulsþjóðgarðs, skrifstofur og upplýsingamiðlun Skaftárhrepps, þekkingarstarfsemi tengda Háskóla Íslands og fræða- og listasetur helgað listamanninum Erró.
Fyrir liggja greiningar á rýmisþörf og frumdrög að útliti og fyrirkomulagi hússins sem verður staðsett rétt suðvestan við félagsheimilið Kirkjuhvol á Kirkjubæjarklaustri. Stefnt er að því að bjóða hönnun sýningarinnar formlega út með haustinu, um leið og framkvæmdin hefur verið samþykkt af Samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir.
Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs ákvað að láta vita að þessi samkeppni stæði til, nú í byrjun sumars, til þess að gefa áhugasömum hönnuðum möguleika á að nýta sumarið til að skoða sig um á vettvangi vestan Vatnajökuls.
Frekari upplýsingar veitir Snorri Baldursson, þjóðgarðsvörður, sími 842 4375, netfang
snorri@vjp.is. Einnig er nánari upplýsingar að finna á heimasíðu þjóðgarðsins
www.vjp.is.
Hér má nálgast greinagerð um svæðið vegna sýningarhönnunarinnar.