TARK – TEIKNISTOFUNNAR ARKITEKTA hlaut fyrstu verðlaun í samkeppni um stækkun verknámsaðstöðu Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi. Sýning á tillögunum 25 sem bárust í samkeppnina verða til sýnis í skólanum til 28. júní og er hún opin almenningi. Sýningin verður jafnframt sett upp í Reykjavík, staðsetning og tímasetning verða auglýst síðar.
Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist snemma árs 2014 og þeim verði lokið um áramótin 2014-15.
Rúmt ár er síðan mennta- og menningarmálaráðuneytið og sveitarfélög sem eiga aðild að Fjölbrautarskóla Suðurlands gerðu með sér samning um að reisa myndarlega viðbyggingu til að bæta verknámsaðstöðu skólans. Ákveðið var að bjóða til opinnar samkeppni um hönnunina í samvinnu við Arkitektafélag Íslands og var hún auglýst á EES-svæðinu.
Alls bárust 25 tillögur. Dómnefndin leitaði einkum eftir snjöllum hugmyndum sem leystu viðfangsefnið á heildstæðan hátt með vandaðri og góðri byggingarlist.
FSu er þróttmikill framhaldsskóli sem markað hefur sér skýra framtíðarsýn um fjölbreytt og metnaðarfullt skólastarf, segir í tilkynningu en verkgreinakennsla fær að njóta sín í nýja húsinu.
„Formið er tímalaust og burðarvirki er augljóst og um leið fræðandi og spennandi. Heildaryfirbragð er gott og er Hamar á sannfærandi hátt órjúfanlegur hluti af heildarásýnd. Guli liturinn hefur beina skírskotun til Odda og dagsbirtunotkun er góð,“ segir meðal annars í umsögn dómnefndar um tillögu TARK
1. verðlaun
TARK – TEIKNISTOFUNNAR ARKITEKTA. Hönnunarhópur: Ásgeir Ásgeirsson, Ásmundur H. Sturluson, Halldór Eiríksson, Hlín Finnsdóttir og Michael Blikdal Erichsen.
2. verðlaun
TEIKNISTOFA ARKITEKTA, GYLFI GUÐJÓNSSON OG FÉLAGAR og LANDARK ehf. Hönnunarhópur: Arnfríður Sigurðardóttir, arkitekt FAÍ, Gylfi Guðjónsson, arkitekt FAÍ , Jóhann Einar Jónsson, arkitekt FAÍ og Pétur Jónsson, landslagsarkitekt FÍLA.
3. verðlaun
ARKITEKTASTOFAN OG. Hönnunarhópur: Sigurður Gústafsson, arkitekt, Garðar Guðnason, arkitekt Hrafnhildur Sverrisdóttir, arkitekt Jódís Ásta Gísladóttir, byggingafræðingur og Lena Margrét Aradóttir, byggingafræðingur.
Innkaup
TEIKNISTOFUNNI TRÖÐ ehf, tillaga ARKITEÓ og tillaga frá STUDIO GRANDA og EFLU.
Athyglisverðar tillögur
Laufey Björg Sigurðardóttir og Hulda Sigmarsdóttir
A3ARCH
HORNSTEINAR ARKITEKTAR
Dómnefndarfulltrúar tilnefndir af verkkaupa
Þórunn Jóna Hauksdóttir, formaður dómnefndar, sérfræðingur í mennta-og menningarmálaráðuneytinu
Gunnar Egilsson, bæjarfulltrúi í Árborg og formaður framkvæmda-og veitustjórnar
Þráin Sigurðsson, sérfræðingur á fjármálasviði mennta-og menningarmálaráðuneytisins.
Dómnefndarfulltrúar tilnefndir af Arkitektafélagi Íslands
Jóhann Sigurðsson, arkitekt FAÍ
Valdís Bjarnadóttir, arkitekt FAÍ
Niðurstöður dómnefndar í heild sinni má nálgast á heimasíðu AÍ.