Á þjóðhátíðardaginn, 17. júní, hlaut Gísli B. Björnsson grafískur hönnuður og fyrrverandi skólastjóri Myndlista- og handíðaskólans, heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu fyrir brautryðjendastarf í íslenskri grafík og framlag til menntunar hönnuða.
Forseti Íslands sæmdi alls níu Íslendinga heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu á Bessastöðum. Hönnunarmiðstöðin óskar Gísla hjartanlega og innilega til hamingju og þakkar ómetanlegt framlag hans til grafískra hönnuða og hönnunar á Íslandi.
Starfsferill Gísla B. Björnssonar
Gísli stofnaði auglýsingastofu Gísla B. Björnssonar þegar hann kom úr
námi frá Þýskalandi árið 1961 og ári síðar stofnaði hann sérdeild í
auglýsingateiknun við Myndlista- og handíðaskólann sem í dag er braut
grafískrar hönnunar í Listaháskóla Íslands. Gísli hefur kennt óslitið í
fimm áratugi og verið óþreytandi í því að efla fagvitund og ábyrgð í
grein sem í dag er orðin ein stærsta hönnunargreinin á Íslandi. Gísli
var skólastjóri Myndlista- og handíðaskólans 1974-1976.
Á langri starfsævi hefur hann unnið að markaðs- og ímyndarmálum fjölda
fyrirtækja og stofnana á Íslandi ásamt því að hafa hannað sjálfur mörg
þekkt merki fyrirtækja, félagasamtaka eða stofnana eða í samvinnu við
samstarfsfólk sitt. Má þar nefna merki sjónvarpsins, merki norræna
félagsins og merki Hjartaverndar og merki íslenskra bókaverslana. Gísli
hefur hannað og sett upp fjölda bóka og gert bókakápur, hannað
auglýsingar á prenti og auglýsingar í sjónvarpi.
Hönnun Gísla ber sterk einkenni módernisma en þeirri stefnu kynntist
hann í Þýskalandi á námsárum sínum. Fyrstu verkefni Gísla eftir að hann
lauk námi eru áhugaverð fyrir ýmsar sakir en þó ekki síst fyrir þá
staðreynd að á þeim tíma er hann að leggja jafnóðum grunn að nýrri
faggrein auglýsingateiknara eins og starfsstéttin hét þá. Verk og
vinnuaðferðir Gísla hafa haft mikil áhrif á þróun grafískrar hönnunar
hér landi og má meðal annars nefna Iceland Review tímaritið en sú útgáfa
braut blað í tímaritaútgáfu hér á landi. Allir þeir grafísku hönnuðir
sem hafa útskrifast á Íslandi hafa notið kennslu og leiðsagnar Gísla, en
hann ákvað að láta af kennslu fyrr á þessu ári.