Fréttir

10.6.2013

Tímamótasamningur milli Myndstefs og Listasafns Reykjavíkur



Ragnar Th. Sigurðsson, stjórnarformaður Myndstefs, og Hafþór Yngvason, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur, undirrituðu föstudaginn 24. maí tímamótasamning milli Myndstefs og Listasafns Reykjavíkur.

Samningurinn fjallar um opinbera birtingu myndverka eftir íslenska og erlenda listamenn sem hafa falið Myndstefi umsýslu með höfundarrétt sinn. Um er að ræða birtingu á myndverkum í tengslum við starfsemi safnsins, skilyrði er varða þá birtingu samkvæmt íslenskum höfundalögum og tryggingu fyrir því að listamenn fái sanngjarna þóknun fyrir þau not.

Í samningnum er fjallað sérstaklega um birtingu myndverka á netinu og þar með miðlun safneignarinnar til almennings.

Um er að ræða tímamótagjörning fyrir myndlistarmenn og aðra myndhöfunda. Með samningnum er mörkuð ákveðin stefna og þau lög og þær reglur sem gilda um höfundarrétt á netinu undirstrikuð. Safninu verður nú heimilt að birta þar myndverk gegn geiðslu árlegrar lágmarksþóknunar.

Um þessar mundir fagnar Listasafn Reykjavíkur 40 ára afmæli Kjarvalsstaða. Safnið hyggur á opnun heimasíðu þar sem birtar verða þúsundir mynda úr safneigninni og verður heimasíðan opin almenningi. Við hjá Myndstefi fögnum mjög framtaki Listasafns Reykjavíkur sem veitir almenningi víðtækari aðgang að íslenskum menningararfi og hjálpar til við að miðla íslenskri listasögu út fyrir landsteinana.
















Yfirlit



eldri fréttir