Fréttir

15.5.2013

Sýningarlok og Krass-kúrs (ör-áfangi) í strætislist með Söru Riel



Framundan er síðasta sýningarhelgi sýninganna Til sjávar og sveita með verkum Gunnlaugs Schevings og Slangur(-y) þar sem verk Söru Riel eru til skoðunar. Á síðasta sýningardegi, sunnudaginn 2. júní kl. 16 mun Sara Riel myndlistarmaður fjalla almennt um sögu, þróun og stöðu graffit/strætislistar í heiminum.

Verk Gunnlaugs koma öll úr safneign Listasafns Íslands og eru ýmist risastór málverk eða fjöldi frumdraga og undirbúningsverka þar sem viðfangefnið er vinna til sjós og ævintýri til sveita. Verk Söru eru ljósmyndir af graffítí-verkum sem hún vann víða um land á árinu 2006 og hafa þau aldrei verið sýnd saman áður.

Sunnudaginn 2. júní kl. 16 mun Sara Riel myndlistarmaður fjalla almennt um sögu, þróun og stöðu graffit/strætislistar í heiminum. Hvernig varð þessi hreyfing til? Hverjir voru upphafsmenn? Hvaða áhrif hefur hún haft?

Um strætislist á almannafæri hefur Sara Riel m.a. sagt: „Það áhugaverða við verk í opinberu rými er að maður er ekki í „myndlistar-stellingum, eins og svo oft gerist þegar maður fer á myndlistarsýningu í lokuðu rými þar sem skilningarvitin eru opin á gátt, heldur sjá allir - áhugasamir eður ei - verkin á leiðinni frá stað A til B. Annar mikilvægur þáttur er að vera stríðandi afl gegn sjónmengun auglýsinga sem hafa það eitt að tilgangi að selja vörumerki. Þessir myndlistarmenn eru ekki að selja neitt, þeir reyna einungis að gera borgarlandslagið manneskjulegra og áhugaverðara."

Sara vakti fyrst eftirtekt sem listamaður vegna strætislistaverka sem finna má víða í Reykjavík og öðrum borgum heimsins en hefur löngu unnið sér sess sem áhugaverður myndlistarmaður og hefur unnið til fjölda viðurkenninga.

Listasafn Árnesinga sem er í eigu allra sveitarfélaganna í Árnessýslu er staðsett að Austurmörk 21, Hveragerði. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu safnsins www.istasafnarnesinga.is og heimasíðu Söru www.sarariel.com. Aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir.
















Yfirlit



eldri fréttir