Fréttir

16.5.2013

Menningarnótt 2013 | Opið fyrir styrkumsóknir



Menningarnótt verður haldin í átjánda sinn þann 24. ágúst n.k. Menningarnótt er hátíð sem allir borgarbúar skapa og upplifa saman, úti á torgum og götum miðborgarinnar, í bakgörðum eða söfnum, fyrirtækjum og ekki síst í húsunum í bænum.

Yfirskrift Menningarnætur er „Gakktu í bæinn!“ sem vísar til þeirrar gömlu og góðu hefðar að bjóða fólk velkomið og gera vel við gesti.

Á vefsíðu Menningarnætur, www.menningarnott.is, er annars vegar hægt að skrá sig til almennrar þátttöku og hins vegar að sækja um styrk fyrir úrfærslu og framkvæmd viðburða. Opnað verður fyrir styrkumsóknir laugardaginn 11. maí en umsóknarfrestur rennur út sunnudaginn 9. júní. Tekið verður á móti almennum umsóknum um þátttöku til 31. júli.

Menningarnæturpottur Landsbankans

Veittir verða styrkir úr Menningarnæturpottinum, á bilinu 50-200 þúsund krónur, til einstaklinga og hópa sem hafa hug á því að skipuleggja fjölbreytta og áhugaverða viðburði á Menningarnótt. Sú nýbreytni hefur nú verið tekin upp að einn hverfahluti miðborgarinnar verður í kastljósinu hverju sinni. Í ár verður það Gamla höfnin og því sérstök áhersla lögð á verkefni henni tengdri. Sú tenging er þó ekki skilyrði fyrir styrkveitingu og tekið verður vel á móti öllum umsóknum.

Menningarnæturpotturinn er samstarfsverkefni Höfuðborgarstofu og Landsbankans sem verið hefur máttarstólpi Menningarnætur frá upphafi. Allur fjárstuðningur bankans rennur til listamanna og skapandi einstaklinga/hópa sem koma fram á Menningarnótt.

Nánari upplýsingar um styrki hátíðarinnar veita viðburðastjórar Höfuborgarstofu, Karen María Jónsdóttir og Guðmundur Birgir Halldórsson á menningarnott@reykjavik.is eða í síma 5901-500.

Myndir: UNSTABLE, Marcos Zotes og Gerður Sveinsdóttir arkitektar settu upp ljós-innsetningu á Menningarnótt 2012 í varðskipinu Týr.

















Yfirlit



eldri fréttir