Andri Snær Magnason rithöfundur og einn af stofnendum Toppstöðvarinnar segir frá nýrri og óútgefinni sögu og Örn Smári Gíslason grafískur hönnuður kynnir spennandi skúffuverkefni í síðasta fyrirlestri í röð vetrarins, í Toppstöðinni laugardaginn 5. maí kl. 11-13.
Andri Snær Magnason er rithöfundur og einn af stofnendum Toppstöðvarinnar. Hann ætlar að segja frá nýrri sögu sem hann er að ljúka um þessar mundir og öðrum verkefnum.
Andri Snær er fæddur í Reykjavík árið 1973, hann lærði Íslensku í HÍ og hefur gefið út tíu bækur, nokkur leikverk, leikstýrt kvikmynd ásamt Þorfinni Guðnasyni og komið nærri hinum ýmsu verkefnum. Bækur hans og hafa komið út í meira en 30 löndum. Andri er vinsæll fyrirlesari um samfélagsmál og skapandi hugsun.
Örn Smári Gíslason er grafískur hönnuður frá MHÍ og hefur starfað á nokkrum helstu auglýsingastofum landsins en verið sjálfstætt starfandi frá 2004. Hugur hans sveigist að hönnun á eigin forsendum og gerir hann gjarna frumgerðir að pælingum sínum sem svo fara í skúffuna ...
Fyrirlestur Arnar Smára kallast Skúffuhönnun & girðingar. Hann vísar þar í skúffuskáldin og hindranir sem hönnuðir mæta í hönnun sinni og þó aðallega framkvæmdinni. Örn Smári mun opna nokkrar skúffur fyrir viðstöddum og draga upp hluti sem ekki hafa komist lengra en þangað og rýna létt í hversvegna staðan er sú.
Toppstöðin, orkuver verkþekkingar og hugvits, heldur opna fyrirlestra fyrsta laugardag í hverjum mánuði í vetur frá kl. 11-13. Toppfólk stöðvarinnar mun kynna hugmyndafræði verka sinna, vinnuferli og áskoranir á opnum fyrirlestrum sem fram fara í mælaherbergi Toppstöðvarinnar í Elliðaárdal fyrir áhugasama. Umræður verða halnar í kjölfarið og léttar veitingar í boði.
Hér má finna viðburðinn á Facebook.
Nánar um fyrirlestraröð Toppstöðvarinnar 2012 - 2013.