Fréttir

26.4.2013

Torg í biðstöðu | Biðsvæði 2013



Reykjavíkurborg óskar eftir hugmyndaríkum og duglegum einstaklingum og hópum til að taka þátt í endursköpun almenningssvæða og torga í biðstöðu í borginni í sumar. Umsóknarfrestur er til 1. maí 2013.

Þetta er þriðja árið sem Reykjavíkurborg fer af stað með biðsvæðaverkefni sem gengur út á að nota tímabundnar lausnir til að hanna og lífvæða almenningssvæði og torg í borginni ásamt því að hvetja borgarbúa til þess að taka virkan þátt í nýtingu borgarumhverfisins.

Verkefnin eru inngrip í almenningsrýmið og geta verið allt frá einstaka viðburðum og innsetningum til hönnunar sem getur staðið í skemmri eða lengri tíma. Völdum svæðum í borginni verður úthlutað til þeirra sem koma að verkefninu ásamt verkefnastyrkjum til hugmyndavinnu og framkvæmda.

Svæðin sem um ræðir eru svokölluð biðsvæði en það eru þau svæði sem eru í millibilsástandi hvað varðar framtíðarskipulag og notkun og því tilvalinn vettvangur til tilraunastarfsemi og prófun á nýjum hugmyndum. Í sumar verður áfram áhersla lögð á torgin í miðborginni ásamt völdum stöðum í öðrum hverfum borgarinnar.

Óskað er eftir skapandi einstaklingum og hópum sem hafa óbilandi áhuga á borgarumhverfinu og langar til að koma að verkefninu. Hafa ber í huga að þátttakendur þurfa að geta komið með hugmyndir, framkvæmt þær ásamt því skrásetja framkvæmdinar og áhrif þeirra á borgarlífið.

Umsóknin:

Ef þú hefur áhuga sendu þá tölvupóst á bidsvaedi@reykjavik.is til og með 1. maí 2013 þar sem kemur fram:

a. Nafn, kennitala, símanúmer, netfang og heimilisfang (allra í hópnum)
b. Nám og fyrri reynsla
c. Ef áhugi er á ákveðnu svæði sem talið er upp í biðsvæðum 2013, er gott að setja fram einhverjar hugmyndir eða áherslur fyrir svæðin, sama á við ef áhugi er á einhverju svæði sem ekki er tilgreint í listanum hér að neðan. Einnig er möguleiki á að senda inn umsókn þar sem svæði er ekki tilgreint en þá er mikilvægt að setja fram einhverjar upplýsingar um áhugasvið eða áherslur einstaklinga eða hópa.
d. Aðrar upplýsingar sem þú telur vera mikilvægar t.d. ef þú hefur unnið að einhverju sambærilegu áður eða hefur ákveðnar hugmyndir um nýjar leiðir í hönnun og ráðstöfun á borgarrýminu.

Farið verður yfir allar umsóknir og haft verður samband við þá aðila sem koma til greina í þetta verkefni. Við val á þátttakendum verður meðal annars tekið mið af reynslu og fyrri störfum. Samsetning hópa hefur einnig áhrif en reynslan hefur sýnt að þriggja til fjögurra manna þverfaglegir hópar henta vel í þessa tegund verkefna. Einstaklingar koma líka til greina en geta átt möguleika á að vinna með öðrum í hóp. Alla aðstoð og nánari upplýsingar veitir Hans Heiðar Tryggvason verkefnisstjóri hjá Umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkur á netfangið: bidsvaedi@reykjavik.is

Biðsvæðin 2013

Miðborg
* Bernhöftstorfa 101 R
* Hafnarsvæði við Reykjavíkurhöfn 101 R
* Hlemmur 105 R
* Hverfisgata 101 R
* Káratorg 101 R
* Lindargata 101 R
* Vitahverfi 101 R
* Tryggvagata 101 R
* Óðinstorg 101 R
* Lækjartorg 101 R

Úthverfi
* Arnarbakki 109 R
* Álfheimar 104 R
* Árbæjartorg 110 R
* Grímsbær 108 R
* Hverafold 113 R
* Laugalækur 105 R
* Markúsartorg við Gerðuberg 111 R
* Stórholt/Einholt 105 R
* Sóltún 105 R
* Þorláksgeisli 113 R
* Ægissíða 107 R

Nánari upplýsingar á reykjavik.is.
















Yfirlit



eldri fréttir