Fréttir

28.5.2013

Skrúður í Dýrafirði hlýtur Carlo Scarpa verðlaunin



Hin virtu Carlo Scarpa verðlaun falla í hlut skrúðgarðsins Skrúðs í Dýrafirði árið 2013, en Benetton rannsóknastofnunin (La Fondazione Benetton Studi Ricerche) veitir verðlaunin.


Þetta er gæðastimpill sem eykur möguleika Skrúðs til kynningar á sjálfum sér á meðan mikilvægi rekstursins nýtur ekki sannmælis hjá innlendum aðilum. Benetton rannsóknastofnunin í Treviso á Ítalíu veitir Carlo Scarpa verðlaunin á hverju ári. Þeim er ætlað að vekja athygli á stað sem hefur sérstaklega ríku hlutverki að gegna í sögulegu og skapandi tilliti auk hins náttúrulega gildis. Fjölþætt sjónarmið koma saman í mati dómnefndar en verðlaunin eru veitt einum aðila fyrir sérstæð menningarleg verðmæti sem felast í verki á sviði landslagsarkitektúrs.

Carlo Scarpa var einn frægasti arkitekt Ítala á 20. öld og eitt helsta átrúnaðargoð Guðjóns Samúelssonar húsameistara og Rögnvaldar Ólafssonar á Ísafirði.

„Þess má geta að allir helstu skrúðgarðar landsins voru skoðaðir af dómnefnd á vegum stofnunarinnar á síðasta ári,“ segir Sæmundur Þorvaldsson á Læk í Dýrafirði, sem á sæti í stjórn Skrúðs. Að hans mati hafa það verið menningarverðmætin sem falin eru í öllu því sem við kemur skóginum sjálfum sem skiptir máli. Aldur og saga sem og lega hans norður við heimskautsbaug hafi vakið athygli dómnefndar, auk þeirra nytja sem af honum voru.

Skrúður er rétt innan við Núp í Dýrafirði. Hann var stofnsettur af séra Sigtryggi Guðlaugssyni, sem var skólastjóri Unglingaskólans að Núpi frá stofnun hans árið 1907 og til 1929. Framsýni séra Sigtryggs við uppbyggingu Skrúðs hefur skilað ferðaþjónustubændum á Vestfjörðum enn fleiri tækifærum til að moða úr.

Sr. Sigtryggur hafði mikinn áhuga á íslenskum jurtum, og þá helst þeim sem mest þóttu til prýði. Hann útvegaði sér jurtir eða fræ frá fjarlægum héruðum,t.d. frá Rangárvallasýslu, úr Eyjafirði, Fnjóskadal, og frá nágrannasveitum. Skrúður var frá upphafi nokkurs konar skólagarður en um leið sérstæð perla í náttúrulandslagi á norðanverðum Vestfjörðum.

Nánari upplýsingar á vefsíðu verðlaunanna, hér.
















Yfirlit



eldri fréttir