Fréttir

1.4.2013

Hugarflug 2013 | Kallað eftir þátttöku



Kallað er eftir þáttttöku í Hugarflugi, ráðstefnu Listaháskólans um tengsl listsköpunar og rannsókna, sem haldin verður í annað sinn þann 16.-17. maí. Tillögum að erindum, málstofum og veggspjöldum skal skila inn fyrir 8. apríl. 

Markmið ráðstefnunnar er að skapa opinn vettvang fyrir miðlun rannsókna á sviði menningar og lista og draga fram þann fjölbreytileika sem einkennir nálgun, aðferðir og efnistök í þekkingarsköpun á sviðinu. Hugarflug er vettvangur fyrir stefnumót akademískra starfsmanna skólans, stundakennara, nemenda og annarra starfandi listamanna, hönnuða og fræðimanna um rannsóknir á sviðinu.

Sú nýbreytni verður á Hugarflugi í ár að tileinka síðari dag ráðstefnunnar meistaranemum skólans, sem nú stunda nám í hönnun, myndlist, listkennslu og tónlist.

Óskað er eftir tillögum að málstofum, erindum og veggspjöldum. Þátttakendur eru hvattir til að finna eigin leiðir í framsetningu á verkefnum og samþætta þannig aðferðir, inntak og miðlun í rannsóknarverkefnum sínum.

Málstofur
Í tillögu að málstofu skal kom fram yfirskrift, stutt lýsing á viðfangsefni, nöfn fyrirlesara og yfirskrift erinda (hámark 200 orð). Hver málstofa skal samanstanda af þremur tengdum erindum, og hvert þeirra skal vera 20 mínútur að lengd.

Erindi
Í tillögu skal koma fram titill erindis og útdráttur. Í útdrætti skal koma fram stutt lýsing á inntaki, aðferðum, rannsóknarferli og helstu niðurstöðum (hámark 200 orð). Hvert erindi skal vera 20 mín að lengd.

Veggspjöld

Í tillögu skal koma fram yfirskrift ásamt stuttri lýsingu á inntaki verkefnis. Veggspjöld skulu vera í stærð A2.

Tillögur skal merkja nafni, starfstitli og netfangi, og senda eigi síðar en 8. apríl á netfangið olofg@lhi.is. Innsendum tillögum verður svarað 19. apríl.

Nánari upplýsingar veitir Ólöf Gerður Sigfúsdóttir, forstöðumaður rannsóknaþjónustu Listaháskólans, olofg@lhi.is, s. 545 2211.
















Yfirlit



eldri fréttir