Fréttir

19.3.2013

Hönnunarverðlaun Fhi veitt í fyrsta sinn



Á HönnunarMars voru í fyrsta skipti afhend Hönnunarverðlaun Fhi (Félag húsgagna- og innanhússarkitekta) við hátíðlegt tækifæri í Listasafni Reykjavíkur, Kjarvalstöðum. Verðlaunin voru veitt framúrskarandi verkefni félagsmanna sem unnin voru á árunum 2007-2012 og einnig var sett upp sýning á safninu sem endurspeglaði brot af því besta í innanhúshönnun síðustu ára.

Verkefnin eru flokkuð í 4 yfirflokka og velur dómnefndin vinningshafa fyrir hvern flokk sem og þau verkefni sem til sýnis verða. Flokkarnir eru; heimili, þjónusta, afþreying og húsgögn.

Dómnefnd: Elísabet V. Ingvarsdóttir, innanhússarkitekt og hönnunarsagnfræðingur, Birgir Þröstur Jóhannsson, arkitekt og Þórey Vilhjámsdóttir, frv. framkvæmdarstjóri Hönnunar- miðstöðvarinnar, sem fulltrúi neytendanna.


Vinningshafarnar Hönnunarverðlauna Fhi voru:

Flokkurinn Heimili
Innréttingar fyrir einbýlishús í grónu hverfi frá 1967 (2010-2011)
Hönnuður: Rut Káradóttir

Dómnefnd telur lausn á innréttingum í einbýlishús frá 1967 í grónu hverfi í Reykjavík vera unna af góðri tilfinningu fyrir aldri og einkennum hússins og um leið skilningi fyrir þörfum íbúa, innbúi þeirra og stíl. Innréttingar og skipulag er allt sérteiknað og endurnýjað og ber vott um góða þekkingu á faglegum lausnum, stefnum og straumum. Vel er gætt að því að skapa gott heildarsamræmi jafnt í formsköpun sem og efnisvali. Unnið er vel með tengs innirýma við góða staðsetningu hússins í áhugaverðu umhverfi þar sem áhersla er lögð á gott flæði og útsýni út í garð. Smáatriði sem ljá innréttingum karakter eru nýtt vel til að gefa heimilinu gott heildaryfirbragð, samsvarandi útlit og heildarmynd allt í gegn.

Flokkurinn Þjónusta
Innréttingar fyrir lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins (LSR) (2012)
Hönnuður: goform (Guðrún Margrét Ólafsdóttir og Oddgeir Þórðarson)

Innanhússhönnun á húsnæði Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins er að áliti dómnefndar vel heppnuð og heildstæð. Unnið er vel út frá því fastmótaða skipulagi sem fyrir er og innréttingar lagaðar vel að því. Að öðru leyti er mikið um endurskipulag sem er unnið í góðu samræmi við bygginguna sjálfa. Efnisval er vel samræmt allt í gegn og tekið að hluta tillit til gólfefna sem fyrir eru sem gefa góða tengingu og flæði á milli hæða og rýma. Áhugaverð er samvinna við grafískan hönnuð í myndverkum á gler-skilveggjum sem gefa rýminu sterkan karakter. Húsgögn eru nær öll hönnuðanna sjálfara jafnt í skrifstofu sem þjónusturými og í góðu samræmi við alla heildina. Hönnuðum tekst að skapa notalegt vinnu- og þjónustuumhverfi sem er í senn aðlaðandi og áhugavert.

Flokkurinn Afþreying
Innréttingar í verslanir Casa (2007-2008)
Hönnuður: Emma J. Axelsdóttir

Dómnefnd telur innréttingar í verlslanir Casa vera framúrskarandi lausn á vandasamri framsetningu á ákveðnum vöruflokki. Jafnt því að þjóna sem útstilling á vörum er lagerpláss verslunar leyst á snilldar máta með því að hafa allar vörur innan seilingar. Lausnin er í senn bæði frumlega og falleg og gefur verslununum heildrænt yfirbragð - einskonar samræmda ímynd. Lita og efnisval sem og önnur útfærsla bera vott um fagmennsku og góða tæknilega þekkingu. Hugmyndin er heilsteypt og vel útfærð og innréttingarnar setja sterkan svip á verslunina um leið og þær eru í góðu samræmi við þær vörur sem þær geyma.

Flokkurinn Húsgögn
Aria borðlína (2011-2012)
Hönnuður: Sturla Már Jónsson

Dómnefnd telur Aría borðlínuna gott dæmi um einfalda en fágaða hönnun sem hentað getur víða. Borðin geta verið í mismunandi stærðum og með örlítilli viðbót sem leyst er í góðu samræmi við hlutföll og efnisval, er komið skrifborð. Borðin byggjast á skýrri formhugsun og góðri tilfinningu fyrir efnisvali. Einföld en snjöll lausn er á sametningu borðfóta og borðplötu sem gefur borðunum bæði karakter og fágað yfirbragð. Dómnefnd telur styrk hönnunarinnar felast í tímaleysi hennar, snjöllum og úthugsuðum samsetningum efna, látlausri formfegurð sem gerir það að verkum að borðin henta jafnt til heimilsnota sem annars staðar og geta fallið vel að mismuandi umhverfi. Hönnunin ber norrænt yfirbragð, er tímalaus og hefur allt til þess að geta lifað lengi.
















Yfirlit



eldri fréttir