Fréttir

20.3.2013

Kollgáta hlýtur Menningarverðlaun DV í arkitektúr



Arkitektastofan Kollgáta hlaut Menningarverðlaun DV 2012 í flokki arkitektúrs fyrir Kaffihúsið í Listigarði Akureyrar. Í flokknum voru jafnframt tilfnefnd Leikskólinn Akrar hannaður af Einrúm og Arkiteó og Stöðin hönnuð af Krads.

Formáli dómnefndar:

Verkefnin sem tilnefnd voru í ár í flokki arkitektúrs eru þrjú talsins. Þau eiga það semeiginlegt að vera öll unnin af litlum og tiltölulega ungum arkitektastofum en það er algjör tilviljun. Það er einnig tilviljun að í tilnefndum byggingum er efnisnotkun um margt svipuð. Einkennandi notkun náttúrulegra efna s.s. sjónsteypu og viðarklæðninga, jafnvel úr íslenskum við, sem gefur þeim einhvern vegin tímalausan, hlýjan og varnalegan blæ. 



Þrátt fyrir efnahagsþrengingar finnast ennþá dæmi um nýjan, framúrskarandi arkitektúr á Íslandi, sem flytur landamæri, skapar samtal, en umfram allt auðmjúkan arkitektúr. Hér erum við ekki að tala um stór hús eða hallir, þvert á móti því tilnefningarnar í ár eru bensínstöð við þjóðveginn, leikskóli í þéttbyggðu íbúðarhverfi og kaffihús í listigarði.

Fjöldi verkefna sem tekin voru til greina var þónokkur en það er synd að meðal þeirra voru nokkur hús þar sem eigendur höfnuðu umfjöllun. Því miður fer samfélagið þarna á mis við góð dæmi um velheppnaðan arkitektúr en við vonum að breyting verði á til framtíðar, þannig að vönduð hús fái að verða fyrirmyndir og geti veitt öðrum innblástur.

Með þessum tilnefningum er það von nefndarmanna að upplifun og umfjöllun um manngert umhverfi og arkitektúr færist á sem flest svið samfélagsins og ekki síst hjá ríki og sveitafélögum þar sem arkitektúr og gæði hans verða í forgrunni. 

Dómnefndin telur sig hafa valið af kostgæfni verðuga fulltrúa til Menningarverðlauna DV í flokki arkitektúrs.

Kaffihúsið í Listigarði Akureyrar
Arkitektar: Kollgáta
Verkkaupi: Akureyrabær

Kaffihúsið er í Listigarði Akureyarar og hefur verið á skipulagi garðsins um árabil eða allt frá stofnun hans fyrir 80 árum. Húsið er reist á vegum Akureyarbæjar og er gjöf hans í tilefni þessa afmælsi. Það er vandasamt verk að koma fyrir nýbyggingu í þessu gróna umhverfi. Það hefur höfundum verksins þó tekist vel. Húsið stendur áreynslulaust upp við aðalstíginn sem liggur í gegn um garðinn, umkringt gömlum og nýjum gróðri, grasflötum og útilistaverkum.

Byggingin nær góðu samtali við umhverfi sitt en galdurinn er m.a. fólginn í þeim góðu hlutföllum sem hún er byggð á, efnisnotkuninni og gegnsæinu. Sóttur er innblástur úr gömlu timburhúsunum sem standa fyrir í garðinum með sínum litlu bíslögum. Bygginarefni eru rammíslensk, sjónsteypa, báruál og lerkiviður. Það sem vekur óneitanlega mesta athygli eru opnir, glerjaðir gaflar sem brotnir eru upp með gluggapóstum sem minna á trjástofna. Þeir skapa heild og samspil milli þess manngerða og þess náttúrulega.

Leikskólinn Akrar
Arkitektar: Einrúm og Arkiteó
Verkkaupi: Garðabær

Staðsetning Akra er mikil áskorun þar sem þétt íbúðahverfi, sem enn er í byggingu, umlykur leikskólann. Skipulag hverfisins ákveður grunnform skólans og leiksvæðisins. Stöllun útisvæðisins gefur mýkt og skapar gott flæði milli þess innra og þess ytra.
Skærgulir gluggarnir í grárri sjónsteypunni eru óneitanlega áberandi en að öðru leiti er gluggasetningin nokkuð hefðbundin. Á móti er suðurhlið hússins mun opnari með stærri gluggaflötum. Yfir stórri verönd hangir jafn stórt þakskyggni sem gerir börnunum kleift að leika sér úti hvernig sem viðrar. Sjónsteypa er megin byggingarefnið að utan en hún er fallega brotin upp með harðiviði í yfirhengdu þakskyggni og verönd.

Að innan fær sjónsteypan einnig að lifa og tengja bygginguna þannig við útisvæðin. Efnisvalið er einfalt en úthugsað. Flestar innréttingarnar bjóða upp á einhvern leik. Gólfið lyftist upp á stöðum og verður afbragðsgóð rennibraut. Handriðin verður flækt og frábær til að klifra í. Að þvo sér um hendur eftir salernisferð verður hin mesta skemmtun því fjórir geta staðið hringinn í kring um vaskinn og borið saman bækur sínar á meðan. Um margt mjög óhefðbundinn leikskóli ef horft er til almennra leikskóla hérlendis. Sannarlega bygging barnanna.

Bensínstöðin Stöðin
Arkitektar: Krads
Innanhúshönnun: Krads í samstarfi við Kára Eiríksson arkitekt
Verkaupi: Skeljungur hf

Stöðin í Borgarnes
Um er að ræða fyrstu Stöðina í röð nýrra þjóðvegsstoppa Skeljungs við Hringveginn. Hún stendur á áberandi stað við innkomuna inn í Borgarnes, umkringd öðrum bensínstöðvum og stórverslunum. Það sem gerir Stöðina augljóslega að betri dæmum um slíkan arkitektúr eru fyrirheitin um nýjan og metnaðarfullan tón í byggingarstíl þar sem sjónsteypa og rennilegt formið mýkir upp annars hart umhverfið. Formið á reyndar líka mjög vel við túlkun á hinum ameríska Diner sem höfundar vitna sjálfir til.

Stöðin reyna ekki að vera neitt annað en hún er, en með efnisnoktun og í einfaldleika tekst henni að skapa sér sérstöðu. Stór, bogadregin gluggahliðin nýtir sér útsýnið og dregur stórbrotna fjallasýnina til viðskiptavinina að njóta. Fyrirkomulag Stöðvarinnar er bæði úthugsuð og heilsteypt.



















Yfirlit



eldri fréttir