Tillaga starfshóps að hönnunarstefnu 2013-2018 var kynnt í ríkisstjórn í dag, þann 12. mars. Markmiðið með mótun hönnunarstefnu fyrir Ísland er að auka vægi hönnunar í allri vöruhugsun, vöruþróun og framleiðslu með það að sjónarmiði að styrkja samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja og auka verðmætasköpun.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti munu á grundvelli tillögu starfshóps vinna endanlega hönnunarstefnu stjórnvalda og útfæra nánar tillögur að aðgerðum. Samtímis munu ráðuneytin vinna að því að hrinda í framkvæmd þeim aðgerðum sem rúmast innan fjárheimilda.
Tillaga að Hönnunarstefnu 2013-2018
Í ársbyrjun 2011 skipaði iðnaðarráðherra þriggja manna starfshóp til að vinna tillögu að hönnunarstefnu. Hópinn skipuðu Sigurður Þorsteinsson formaður, fulltrúi iðnaðarráðherra auk Jóhannes Þórðarsson tilnefndur fyrir mennta- og menningarmálaráðherra og Halla Helgadóttir tilnefnd af Hönnunarmiðstöð Íslands.
Hönnunarstefnan var unnin í nánu samstarfi við fulltrúa atvinnulífsins og hönnunargeirans. Drög að stefnunni fóru í fjögurra vikna kynningarferli á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis í janúar og febrúar s.l. Umsagnir sem bárust voru hafðar til hliðsjónar í þeim stefnudrögum sem hér liggja fyrir.
Víða hafa þjóðir áttað sig á mikilvægi hönnunar í stærra samhengi og markað sér hönnunarstefnu. Finnland hefur til að mynda markað sér heildstæða hönnunarstefnu til að styðja við hagkerfið og efla samkeppnishæfni. Er það mat sérfræðinga að innleiðing heildstæðrar hönnunarstefnu þar í landi hafi skipt verulegu máli við að leysa efnahagskreppuna á níunda áratugnum. Efling hönnunar hefur því efnahagslegan ávinning svo fremi sem hönnun er þáttur í stefnu stjórnvalda og fyrirtækja.
Stoðir stefnunnar eru:
• Menntun og þekking – byggja upp, efla og styrkja hönnunarmenntun
• Starfs- og stuðningsumhverfi – auka faglegar áherslur, einfalda leiðir og efla frumkvæði
• Vitundarvakning – fræða, kynna og sýna íslensk verkefni á sviði hönnunar