Fréttir

20.4.2013

Ljósmyndasýningin Langa andartakið í Norræna húsinu



Sarah Cooper og Ninar Gorfer vinna saman að ljósmyndalist og tískuljósmyndun fyrir tímarit og auglýsingar en ljósmyndalist þeirra er á mörkum ljósmyndunar og málverkalistar. Á sýningu þeirra í Norræna húsinu, sem hefur verið framlengd til 17. júní eru m.a. myndir sem þær tóku fyrir heimsfræga fatahönnuðinn Vivienne Westwood.

Norræna húsið sýnir ljósmyndir Söruh Cooper og Ninu Gorfer. Sýningin nefnist Langa andartakið og verður opin 9.mars - 17.júní. Sýningin er sett upp í samstarfi við Dunkers Kulturhus í Helsingborg, Svíþjóð. Sýningarstjóri er Lena Wilhelmsson. Sýningin er framleidd af Dunkers Kulturhus í Helsingborg og Hasselblad Center í Gautaborg.

Ljósmyndalist Cooper og Gorfer er á mörkum ljósmyndunar og málverkalistar. Útkoman á eftirvinnslu mynda er líkust samsettu málverki. Frásögnin er aldrei línulaga, þvert á móti lifa margir veruleikar sem eru draumum líkastir í myndum þeirra. Niðurstaðan er töfrandi falleg. Forvitnin leiðir þær áfram á nýja og óþekkta staði og hógvært skoða þær og rannsaka umhverfið og fólkið.

Sarah Cooper og Ninar Gorfer búa og starfa í Gautaborg, Svíþjóð. Sarah Cooper er með bakgrunn í tónlistarframleiðslu og nam ljósmyndalistina í Bandaríkjunum þaðan sem hún kemur upprunalega. Nina Gorfer er menntaður arkitekt frá Vínarborg, en hún er frá Austurríki. Þær hittust í hönnunarháskólanum HDK í Gautaborg 2004 og hafa síðan 2006 unnið saman. Þær heimsóttu Ísland árið 2005 og birtust myndir þeirar ferðar í bókinni 01/Iceland sem fékk sænsku bókalistaverðlaunin 2009. Þær myndir er nú hægt að sjá í fyrsta sinn á Íslandi í Norræna húsinu.

Samhliða listrænu samstarfi hafa Cooper og Gorfer tekið að sér ýmis verkefni fyrir tímarit, auglýsingar og tískuljósmyndun. Á sýningu þeirra í Norræna húsinu getur að líta m.a. myndir sem þær tóku fyrir heimsfræga fatahönnuðinn Vivienne Westwood.

Sýningin Langa antartakið gefur tóninn varðandi Norræna tískutvíæringinn www.nordicfashionbiennale.com (NFB) sem verður haldinn í Museum of Applied Arts í Frankfurt, í mars 2014.Sýningarstjórar á tískutvíæringnum verða þær Cooper og Gorfer og vinna þær með fatahönnuðum, sem þær hafa valið til samstarfs, frá Íslandi, Grænlandi og Færeyjum.

Langa andartakið var hluti af dagskrá HönnunarMars 2013
Norræna húsið, 9.mars-17.júní
Sýningin er opin þriðjudaga-sunnudaga frá kl. 12-17

















Yfirlit



eldri fréttir