Fréttir

4.3.2013

Hönnunarverðlaun Reykjavík Grapevine 2012



Árleg vöruhönnunarverðlaun tímaritsins Reykjavík Grapevine í samstarfi við Hönnunarmiðstöð Íslands voru afhend í þriðja sinn þann 1. mars við hátíðlega athöfn á Icelandair Hotel Reykjavík Marína. Torg í biðstöðu, Ostwald Helgason, Kría Jewellery og Holster hlutu verðlaunin að þessu sinni, í flokkunum verkefni ársins, tískuhönnun ársins, vörulína ársins og vara ársins. Við tilefnið var einnig dagskrá HönnunarMars 2013 kunngerð, en hún birtist í marstölublaði Reykjavík Grapevine sem kom á göturnar sama dag.


Að mati dómnefndar er hið stórsniðuga Holster vesti þeirra Sigga Odds og Bóasar Kristjánssonar Vara ársins. Rökstyður dómnefnd val sitt með þeim rökum að vestið sé „hágæðavara sem hefur jafnframt skýrt og mikið notagildi—praktísk lausn sem hentar bæði til leikja og starfa.“ Varan er jafnframt talin vera „úthugsuð, allt frá hönnun til framleiðslu, markaðssetningar og sölu.“

Vörulína ársins er að mati dómnefndar Cod II frá skartgripamerkinu Kría, sem starfrækt er af Jóhönnu Methúsalemsdóttur, en Cod II er skartgripalína sem er innblásin af þorskbeinum. Segir dómnefnd að línan sé „áhugaverð og fögur túlkun á þorskinum, sem haldið hefur lífi í landsmönnum um áraraðir.“ Nostrað er við öll smáatriði og hönnunin myndar „skemmtilega tengingu við mannslíkamann.“ Eins er Cod II talið til tekna að vera á viðráðanlegu verði sem hentar flestum.

Verkefnið Torg í biðstöðu, sem starfrækt er af Reykjavíkurborg, var valið Verkefni ársins, en þar eru áhugasamir hvattir og styrktir til að endurskoða samband sitt við nærumhverfið og hafa áhrif á það. „Torg í biðstöðu hefur mikil áhrif á samfélag okkar og sýnir hvernig hönnun og hönnunarhugsun getur haft jákvæð áhrif án mikils kostnaðar eða fyrirhafnar. Þó að álíka verkefni eigi sér stað víða um heim eru fáar höfuðborgir sem hvetja og styrkja slík jafn eindregið og Reykjavíkurborg,“ segir dómnefnd í rökstuðningi sínum, en hún klykkir út með því að áhersla verkefnisins á „framkvæmdir“ sé henni sérstaklega hugleikin.

Verðlaunaflokkurinn Tískuhönnun ársins var svo kynntur til sögunnar í ár, en það var Ostwald Helgason sem hreppti viðurkenningu dómnefndar. Segir dómnefnd að vörulína merkisins hafi til að bera „frábær snið og stórskemmtilega liti,“ auk þess sem hver vörulína þeirra myndi heildstætt safn. „Ostwald Helgason hefur þróast hratt og vel á ákaflega skömmum tíma og við, ásamt afgangnum af tískuheiminum, getum ekki beðið eftir því að sjá hvað kemur næst frá þeim.“

Dómnefndin var skipuð Sari Peltonen (fyrir hönd Reykjavík Grapevine), Helga Steinari Helgasyni arkitekt (fyrir hönd Hönnunarmiðstöðvar Íslands), fatahönnuðinum Auði Karítas frá versluninni Geysi, Hafsteini Júlíussyni vöruhönnuði og Rúnu Thors, kennara við vöruhönnunardeild LHÍ. Ráðgjafi varðandi tískuhönnun ársins var Ragnheiður Axel Eyjólfsdóttir frá fatahönnunarfélagi Íslands. Dómnefnd voru settar þær skorður í vali sínu að verðlaunaðar yrðu vörur sem væru raunverulegir og áþreifanlegir hlutur, allt frá keramiki að skartgripum. Skilyrði var og sett um að vörurnar hefðu komið fram árið 2012.

Útgefandi Reykjavík Grapevine, Hilmar Steinn Grétarsson, segir að markmið verðlaunanna sé eftir sem áður að vekja athygli á því sem vel er gert og að styðja við bakið á ört vaxandi og gífurlega spennandi geira hér á landi. “Í gegnum starf okkar hjá Grapevine komumst við í tæri við mikinn fjölda skapandi hæfileikafólks og verðum vör við orkuna sem kraumar undir í skapandi greinum. Við viljum leggja okkar af mörkum til að styðja frekar við allt það góða starf sem unnið er á þessum vettvangi og þótti verðlaunaafhending og umfjöllun í kjölfarið skemmtileg leið til þess,” segir Hilmar.

Tímaritið Reykjavík Grapevine mun í sumar fagna tíu ára afmæli sínu, en nýtt hefti blaðsins sem kom á göturnar á föstudag er sérstaklega helgað HönnunarMars. Grafísku hönnuðirnir Jónas Valsson og Ármann Agnarsson hönnuðu forsíðu heftisins og prýða hana jafnframt, en þeir eiga heiðurinn af ansi nýstárlegu einkenni HönnunarMars í ár.
















Yfirlit



eldri fréttir