Fréttir

23.2.2013

Fatahönnuðir Eley Kishimoto flytja erindi á fyrirlestradaginn




Upphafstaktur HönnunarMars 2013 er líkt og undanfarin ár spennandi fyrirlestradagur þar sem framúrskarandi hönnuðir og fagfólk veitir innblástur með þekkingu sinni og reynslu. Hvað þýða galdrar í ólíku samhengi? Hvað hamlar og hleypir göldrum af stað? Hver er galdurinn í sköpunarkraftinum? Hvernig getum við betur tengt hug og hönd? Hulduheimur Þjóðleikhússins umvefur gesti. Komdu og finndu galdurinn.

Fram koma:

Hönnuðirnir á bak við Eley Kishimoto, hjónin Mark Eley og Wakako Kishimoto eru þekkt fyrir litríkan fatnað og fylgihluti, þar sem einstök mynsturhönnun er í aðalhlutverki. Hönnuðirnir, sem vinna gjarnan á jaðri hins hefðbundna tískuheims, hafa starfað saman í ríflega tvo áratugi og leita fanga í breskum handverksbrunni Eley og japönskum hönnunararfi Kishimoto.

Juliet Kinchin er sýningarstjóri í hönnunar- og arkitektúrdeild MoMA og starfaði áður sem sýningarstjóri hjá Victoria og Albert Museum. Juliet gegnir stöðu honorary research fellow við Glasgow háskóla og hefur mikinn áhuga á og skrifar um hlutverk nútímahönnunar í félagslegu og pólitísku samhengi. Juliet hefur áður kennt við Glasgow School of Art og Bard Gradutate Center.

Inge Druckrey er grafískur hönnuður og á 40 ára glæstan starfsferil að baki sem bæði starfandi hönnuður og prófessor í Kunstgewerbeschule í Basel í Sviss. Inge hefur helgað ævistarf sitt hugmyndum um töfra augans og æfingum til að læra að nota sjónina betur í hversdagslífinu og njóta meiri fegurðar. Heimildamynd um Inge Teaching to See kom út 2012 og naut mikillar hylli gagnrýnenda.

Maja Kuzmanovic
er stofnandi FoAM, þar sem hún leiðir metnaðarfullan hóp þverfaglegs teymis m.a. hönnuða, listamanna, kokka, garðyrkjumanna og vísindamanna. Maju er erfitt að skilgreina en FoAM hefur meðal annars að leiðarljósi að rækta menninguna til að næra samfélag framtíðarinnar. Maja var útnefnd ein af Top 100 Young Innovators (1999) og Young Global Leader (2006) af World Economic Forum og MIT Technology review.

Fundarstjóri er Hrund Gunnsteinsdóttir, átaka-og þróunarfræðingur og draumóramanneskja.

Á meðal þeirra sem veitt hafa gestum fyrirlestradagsins innblástur fyrri ár er fólk í fararbroddi á sínu sviði sem hefur með störfum sínum haft mótandi áhrif og má þar nefna Winy Maas, Ilkka Suppanen, Sigga Eggertsson, Bjarke Ingels og Paul Bennett.

Miðaverð: 5.900kr. á Miði.is
Léttur hádegisverður innifalinn í miðaverði.

Fyrirlestradagurinn er hluti af HönnunarMars og skipulagður af Hönnunarmiðstöð og haldinn í samstarfi við Íslandsbanka.
















Yfirlit



eldri fréttir