Fréttir

29.1.2013

Gestagangur | „ECAL- Swiss Art and Design“ í hádeginu á fimmtudaginn



Nemendur í meistaranámi í hönnun við ECAL Listaháskólann í Lausanne eru gestir hönnunar- og arkitektúrdeildar þessa vikuna og munu rektor ECAL, Alexis Georgacopoulos og Augustin Scott, fagstjóri meistaranáms í vöruhönnun við ECAL flytja erindið „ECAL- Swiss Art and Design“ í LHÍ, Þverholti 11, fyrirlestrarsal A, fimmtudaginn 31. janúar, kl. 12:10. Fyrirlesturinn er hluti af fyrirlestraröð hönnunar - og arkitektúrdeildar Listaháskóla Ísland

Fyrirlesturinn mun vera kynnig á skólanum ECAL. Einnig verður fjallað verkefni sem skólinn hefur komið að og hvernig list- og hönnunarnám er mótað innan skólans.

Alexis Georgacopoulos
Stjórnandi ECAL, University of Art and Design Lausanne

Alexis Georgacopoulos er fransk-grískur, fæddur í Aþenu í Grikklandi árið 1976. Hann hlaut BA-gráðu í vöruhönnun frá ECAL 1999, og árið 2000 hlaut hann yngstur allra deildarforsetastöðu í Sviss þegar hann tók við stjórn iðnhönnunardeildar við ECAL. Í huga Georgacopoulos má öðlast þekkingu í listum og hönnun með því að flétta náið saman listsköpun og menntun. Í ljósi þessa hefur hann unnið nýsköpun, skapandi hugsun og gæðamenntun brautargengi í listum og hönnun, um leið og hann hefur sinnt eigin hönnun. Georgacopoulos hlaut hin virtu Leenaards Foundation Cultural Grant verðlaun 2006 og árið 2008 dvaldi hann í fjóra mánuði í Hong Kong við hönnunarverkefni á sviði iðn- og innanhússhönnunar. Sem deildarforseti ECAL 2009-2012 stóð hann fyrir því að staðsetja deildina kyrfilega á alþjóðlega sviðinu. Hann tók formlega við skólastjórastöðu ECAL í júlí 2011.

Augustin Scott de Martinville
Stjórnandi meistaranáms ECAL í vöruhönnun

Augustin Scott de Martinville er fæddur í París árið 1980. Hann ólst upp í Asíu (9 ár í Peking, 5 ár í Hong Kong) en fluttist til Sviss árið 2000 til að nema iðnhönnun við ECAL. Hann útskrifaðist með meistaragráðu árið 2005 og var boðin kennarastaða við skólann sama ár. Á sama tímabili stofnaði hann BIG-GAME hönnunarstofu með Grégoire Jeanmonod (Sviss) and Elric Petit (Belgíu). BIG-GAME sinnir núna verkefnum fyrir fyrirtæki eins og Magis á Ítalíu, Karimoku New Standard í Japan og Hay í Danmörku, og fékk stofan svissnesku hönnunarverðlaunin 2006 og 2010. Auk hönnunarvinnu sinnar er Martinville prófessor við ECAL og stjórnandi meistaranáms í vöruhönnun.

Fyrirlesturinn fer fram á ensku og eru allir velkomnir.
















Yfirlit



eldri fréttir