Félag íslenskra teiknara fagnar í ár 60 ára afmæli og mun fyrsta í afmæli verða fagnað með árlegri FÍT keppninni um það besta í grafískri hönnun á Íslandi og tilheyrandi sýningu á verkum sem vinna til verðlauna og viðurkenninga HönnunarMars. FÍT 2013 verðlaunaafhendingin fer fram þann 8. mars.
Flokkum á sviði myndskreytinga var bætt við í FÍT 2012 og gafst það vel. Sigurverk úr flokki myndskreytinga voru myndskreytingar Sigga Eggertssonar fyrir Landsbankann og hlutu heiðursverðlaun keppninnar og í framhaldinu vann sama verkið til verðlauna í virtri samkeppni Art Director´s Club of Europe, þau fyrstu sem íslenskur grafískur hönnuður hefur hlotið í keppninni. Í ár hefur verið bætt við flokknum gagnvirk miðlun.
Innsendingar í keppnina voru opnaðar fyrir aðra en FÍT meðlimi í síðustu FÍT keppni og gaf það góða raun, enda markmið keppninnar að endurspegla það besta í grafískri hönnun á Íslandi og ekki eingöngu það besta meðal félagsmanna. Sami háttur er því hafður á í ár. Að lágmarki einn af skráðum hönnuðum innsends verks þarf að vera meðlimur í FÍT til að greiða FÍT verðið, en ef enginn skráðra hönnuða er meðlimur skal greiða fullt gjald.
Öll verk sem voru unnin frá ársbyrjun 2012 fram að keppninni í ár eru gjaldgeng í FÍT 2013 keppnina. Skilyrði fyrir þátttöku er að verkefnið hafi verið birt, þ.e. sé raunverulegt verkefni fyrir kúnna og ekki svokallað draugaverkefni. Skila má inn einu verkefni í fleiri en einn flokk og er hvert um sig sér innsending og sér skráning með tilheyrandi skráningargjaldi. Eintak af prentuðum gögnum þarf að fylgja hverri skráningu.
Skilafrestur er til 15. febrúar.
Allar nánari upplýsingar um innsendingar og flokkana er að finna á
teiknarar.is
Mynd: úr mynskreytingaröð Sigga Eggertsson fyrir Landsbankann, sem hlaut heiðursverðlaun keppninnar í fyrra.