Fréttir

15.2.2013

Wrong for Hay kemur á DesignMatch



Wrong for Hay hefur staðfest komu sína á DesignMatch en um er að ræða nýtt merki, staðsett í Lundúnum, undir hatti hins danska HAY. WfH leggur áherslu á lýsingu, húsgögn og fylgihluti fyrir fyrirtæki og heimilinu. Vörulínan verður sett saman af hlutum hönnuðum af listrænum stjórnanda merkisins, Sebastian Wrong og alþjóðlegum hönnuðum þar sem viðráðanleg verð fara saman við hugvitsamlega hönnun.

Nú hafa verið kunngjörðir fimm kaupendur á kaupstefnuna DesignMatch. Auk Wrong for Hay eru það One Nordic Furniture Company, Design House Stockholm, Juliet Kinchin er sýningarstjóri í hönnunar- og arkitektúrdeild MoMA og Epal. DesignMatch fer fram í Norræna húsinu föstudaginn 15. mars.

Á HönnunarMars stendur Hönnunarmiðstöð fyrir kaupstefnunni DesignMatch í samstarfi við Norræna húsið. Þetta er í fjórða skiptið sem verkefninu er hleypt af stokkunum en það hefur mælst vel fyrir meðal hönnuða og þeirra fyrirtækja sem hafa tekið þátt.

Á DesignMatch gefst Íslenskum hönnuðum tækifæri á að hitta kaupendur, framleiðendur og seljendur hönnunar í þeim tilgangi að kynna fyrir þeim verk sín. Markmiðið er fyrst og fremst að skapa íslenskri hönnun brautargengi á einum mikilvægasta markaði Íslands, Norðurlöndunum. Verkefnið hefur skilað meiri árangri en bjartsýnust menn þorðu að vona.

Dýrmæt tengsl hafa myndast milli hönnuða og gestanna og samningar hafa verið undirritaðir á milli hönnuða og fyrirtækja. Sem dæmi má nefna borðið Fáka eftir Chuck Mack en samningur um það var gerður við Design House Stockholm á DesignMatch 2012.

DesignMatch fer fram í Norræna húsinu föstudaginn 15. mars en HönnunarMars er haldinn 14. - 17. mars. Skilafrestur á innsendingum hefur verið framlengdur til 19. febrúar. Nánari upplýsingar er að finna hér.
















Yfirlit



eldri fréttir