Fréttir

6.1.2013

Klippt og skorið | Skapandi bókverk og einfalt bókband



Þann 25. janúar 2013 standa Hönnunarsafn Íslands og fræðslu- og menningarsvið Garðabæjar fyrir námsstefnu þar sem viðfangsefnið verður skapandi bókverk og einfalt bókband. Fyrirlesari og kennari verður Sigurborg Stefánsdóttir grafískur hönnuður og forsprakki ,,Arkanna”, félagsskapar sem staðið hefur fyrir spennandi bókverkasýningum hér heima og erlendis. Sigurborg hefur einnig starfað sem kennari m.a. við Myndlista- og handíðaskólann / Listaháskólann og kennt grafíska hönnun og bókagerð.

Námsstefnan er haldin í tengslum við sýningu Hönnunarsafns Íslands á verkum Gísla B. Björnssonar. FIMM ÁRATUGIR Í GRAFÍSKRI HÖNNUN. Á langri starfsævi hefur Gísli hannað margar bókakápur, forsíður tímarita og þekkt merki fyrirtækja, t.d. merki Sjónvarpsins og Hjartaverndar.

Námsstefnan er ætluð hönnuðum, list- og verkgreinakennurum og kennurum í nýsköpun og hönnun á leik-, grunn og framhaldssskólastigi á höfuðborgarsvæðinu.

Dagskrá námsstefnunnar:
Föstudagur 25. janúar 2013, frá kl. 9:00 -15:00, fyrirlestur og vinnusmiðja. Sigurborg setur upp kynningu á bókverkum Arkanna á meðan á námsstefnunni stendur en þar má skoða efni, form, innihald og prent þessara skapandi bókverka.

Fyrri hluti, fyrirlestur:
Klippt og skorið, fyrirlestur um skapandi bókverk og einfalt bókband. Kynntar verða til sögunnar fjölmargar aðferðir við að búa til bókverk, mismunandi bókarbrot og skapandi bókverk hönnuða skoðuð.

Síðari hluti, vinnusmiðja:
Þátttakendur búa til bókverk og velta fyrir sér með tilraunum breytilegu formi bókarinnar og möguleikum hennar. Á staðnum verða gamlar bækur sem þátttakendur geta notað sem efnivið í tilraunirnar.

ATH. Takmarkaður fjöldi. 25 manns.

Námsstefnugjald: 10.000 kr
Innifalið: Pappír,gamlar bækur og annað efni í vinnusmiðju, kaffi og hressing.
Verkefnisstjóri námsstefnunnar er Árdís Olgeirsdóttir, fræðslu- og kynningarfulltrúi í Garðabæ.

Vinsamlegast tilkynnið þátttöku með skráningu á: ardisol@gardabaer.is
















Yfirlit



eldri fréttir