Fréttir

12.12.2012

Marcos Zotes útfærir opnunaratriði Vetrarhátíðar 2013



Tillaga Marcos Zotes bar sigur úr bítum í samkeppni um opnunaratriði Vetrarhátíðar 2013. Vinningstillagan er innsetning í opnu rými í miðborg Reykjavíkur og mun verkið marka upphaf Vetrarhátíðar og verður afhjúpað fimmtudagskvöldið 7. febrúar 2013.

Höfuðborgarstofa, Orkusalan og Hönnunarmiðstöð Íslands stóðu fyrir samkeppni um opnunaratriði Vetrarhátíðar í Reykjavík 2013 og í rökstuðningi dómnefndar fyrir valinu segir: „Tillaga Marcos vann meðal annars vegna þess að hún uppfyllti á spennandi hátt þær kröfur sem gerðar voru til vinningsverksins. Verk Marcos mun tvímælalaust vekja athygli og ánægju íbúa og gesta borgarinnar og felur  í sér upplifun, gagnvirkni og gleði, þar sem gestir hátíðarinnar hafa sjálfir áhrif á útkomu verksins. Hugmyndin kveikti einfaldlega í okkur og við hlökkum til að sjá hana verða að veruleika“.

Marcos er borgarbúum alls ekki ókunnur. Hann átti einnig opnunarverk Vetrarhátíðar 2012 þar sem hann umbreytti framhlið Hallgrímskirkju og framkallaði kraftmikla sjónræna upplifun hjá áhorfendum. Hann hefur einnig verið að geta sér gott orð á erlendum vettvangi með ljósverkum sínum og búast má því við glæsilegu sjónarspili á opnunarhátíð

Vetrarhátíðar 2013. Skoða opnunarverk Vetrarhátíðar 2012

Reykjavíkurborg hefur haldið Vetrarhátíð árlega frá árinu 2002. Hún fagnar ljósi og vetri með dagskrá sem tengist menning og listum, orku og atvinnulífi, félags- og skólastarfi, útivist og íþróttum, umhverfi og sögu. Hátíðin lýsir upp vetrarmyrkrið í febrúar með viðburðum og uppákomum af ýmsu tagi, stórum sem smáum, og gefur borgarbúum og gestum tækifæri til að taka þátt í fjölbreyttri dagskrá sér að kostnaðarlausu.

Ljósmyndin er af opnunaratriði Marcos Zotes á Vetrarhátíð 2012.
















Yfirlit



eldri fréttir