Fréttir

5.12.2012

Listaháskóli Íslands auglýsir eftir umsóknum um starf rektors



Eldmóður og skýr framtíðarsýn fyrir listir og hönnun þarf að einkenna rektor Listaháskóla Íslands. Mikilvægt er að rektor hafi listræna yfirsýn, þekkingu og innsæi. Rektor þarf að vera áræðinn og frjór og njóta virðingar og trausts innan hins akademíska samfélags og meðal listamanna. Sem opinber málsvari og talsmaður skólans þarf hann að vera ritfær og geta komið vel fyrir sig orði á opinberum vettvangi.

Rektor er æðsti stjórnandi Listaháskólans og annast rekstur og stjórnun í umboði stjórnar og ber ábyrgð gagnvart henni. Listaháskóli Íslands er sjálfseignarstofnun með viðurkenningu á fræðasviðinu listir og starfar samkvæmt lögum um háskóla 63/2006. Skólinn starfar í fimm deildum: myndlistardeild, hönnunar-og arkitektúrdeild, tónlistardeild, leiklistar- og dansdeild, og listkennsludeild. Nemendur eru um 480, þar af einn fimmti á meistarastigi. Skólinn starfar á þremur stöðum í Reykjavík: Þverholti, Sölvhólsgötu, og Laugarnesvegi.

Menntun og hæfniskröfur:

* Meistara- eða doktorspróf í listum og/eða listtengdum greinum

* Yfirgripsmikil reynsla af listsköpun og/eða akademísku starfi getur verið metin jafngild ofangreindum menntunarkröfum

* Umtalsverð reynsla af starfi í listsköpun og/eða af akademísku starfi ásamt stjórnunarreynslu

* Leiðtogahæfni, innsæi og lipurð í samskiptum

Umsóknum skal fylgja greinargóð skýrsla um listræn störf umsækjanda, rannsóknir og ritsmíðar ásamt upplýsingum um kennslu hans og stjórnun í skólastarfi. Einnig skulu fylgja aðrar þær upplýsingar er umsækjandi telur að geti varpað ljósi á reynslu hans og þekkingu gagnvart viðkomandi starfi. Ennfremur skal fylgja yfirlit um námsferil og afrit af prófskírteinum ásamt greinargerð um hugmyndir umsækjanda um auglýsta stöðu. Æskilegt er að umsagnir um fyrri störf umsækjanda berist með umsókn, og ennfremur kennslumat nemenda ef slíkar upplýsingar liggja fyrir Að öðru leyti er vísað til auglýsingar um stöðuna.

Hæfisnefnd verður skipuð af stjórn þegar umsóknir liggja fyrir. Nefndin hefur það hlutverk að meta menntun, reynslu og hæfi umsækjenda. Farið er með nöfn umsækjenda sem trúnaðarmál. Umsækjendur þurfa þó að vera reiðubúnir að standa frammi fyrir lokuðum hópi stjórnenda innan skólans og gera grein fyrir sinni framtíðarsýn fyrir Listaháskóla Íslands. Stjórn tekur endanlega ákvörðun um ráðningu og er rektor ráðinn til fimm ára í senn frá og með 1. ágúst 2013.

Umsóknum skal skila á aðalskrifstofu skólans að Þverholti 11, Reykjavík, eigi síðar en fimmtudaginn 3. janúar næstkomandi.

Skólinn áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum.

Upplýsingar um starfið veita Gunnhildur Arnardóttir, gunnhildurarnar@ceohuxun.is og Trausti Harðarson, traustihardar@ceohuxun.is
















Yfirlit



eldri fréttir