Fréttir

4.12.2012

Hönnunarsjóður Auroru | Sex og hálfri milljón úthlutað til hönnuða og arkitekta



Hönnunarsjóður Auroru úthlutaði 6,5 milljónum til hönnuða og hönnunarverkefna, s.l. 27. nóvember. Athöfnin fór fram í hádeginu í Vonarstræti 4b, í húsnæði Hönnunarsjóðsins.

Hönnunarsjóður Auroru hefur úthlutað alls 17 milljónum til hönnuða og hönnunarverkefni á árinu 2012. Hjá sjóðnum er lögð áhersla á að styðja verkefni þar sem hönnuðir hafa skýra sýn og markmið. Í þessari úthlutun má greina áherslu hönnuða á mikilvægi rannsóknarvinnu við undirbúning verkefna sinna. Það er fulltrúum sjóðsins sönn ánægja að geta veitt hönnuðum næði til að kafa á aukið dýpi í rannsóknarvinnu sinni sem er einn mikilvægasti þáttur hönnunarferlisins og forsenda góðrar útkomu.

Þeir hönnuðir og hönnunarverkefni sem hlutu styrk í nóvemberúthlutuninni:

Fathönnunarverkefnið Ostwald Helgason (1.5 milljón) Ingvar Helgason og Susanne Ostwald fatahönnuðir, fyrir frekari þróun og markaðsstarf fyrir fatalinun sína og þátttöku í tískuvikunni í New York í maí 2013.

Spark Design Space (1.2 milljón) Fyrir gerð kynningarefnis um hönnun og hönnuði sem sýnt hafa í galleríinu.

Vöruhönnunarverkefnið Textasíða (1.2 milljón) Snæfríð Þorsteins og Hildigunnur Gunnarsdótir vöru- og grafískir hönnuðir, fyrir frekari vöruþróun og undirbúning verkefnisins Textasíður fyrir fjöldaframleiðslu.

Ransóknar og hönnunarverkefni byggt á ævistarfi Gísla B. Björnssonar (1.2 milljón) Ármann Agnarsson grafískur hönnuður, fyrir rannsóknar og hönnunarverkefni byggt á ævistarfi grafíska hönnuðarins Gísla B. Björnssonar í tengslum við uppsetningu sýningar sem nú stendur yfir í Hönnunarsafni Íslands.

Arkitektúr, bókverk (750 þúsund) Guðni Valberg arkitekt og Anna Dröfn Magnúsdóttir sagnfræðingur, fyrir rannsóknar- og hönnunarverkefni vegna undirbúnings að gerð bókar um sögu hönnunar og staðarvals margra helstu bygginga í Reykjavíkurborg.

Guðrún Eysteinsdóttir textílhönnuður (500 þúsund) Styrkur til starfsnáms hjá Center for Advanced Textiles (CAT) í Glasgow, Skotlandi.

Hildigunnur Sigurðardóttir fatahönnuður (500 þúsund) Styrkur til starfsnáms hjá fatahönnuðinum Roland Mouret í London.

Um er að ræða aðra úthlutun úr sjóðnum á þessu ári, en þá níundu frá því Hönnunarsjóðurinn hóf starfsemi sína í byrjun árs 2009. Aftur verður úthlutað úr sjóðnum á vormánuðum 2013.

Nánari upplýsingar veitir:
Guðrún Margrét Ólafsdóttir frkv.stj. Hönnunarsjóðs Auroru, s. 772-1200 gmo@honnunarsjodur.is www.honnunarsjodur.is

Nánar um Hönnunarsjóð Auroru:

Hönnunarsjóður Auroru hefur það að markmiði að skjóta styrkum stoðum undir íslenska hönnun með því að veita hönnuðum og arkitektum fjárhagslega aðstoð. Markmið hans er að styrkja hönnuði til að koma sjálfum sér, hugmyndum sínum, vörum og verkefnum á framfæri og aðstoða við vöruþróun og markaðssetningu hérlendis og erlendis. Einnig getur sjóðurinn haft frumkvæði að sjálfstæðum verkefnum sem þjóna tilgangi hans svo sem að standa að viðurkenningum eða sýningum og vera samstarfsvettvangur hönnuða og aðila úr atvinnu- og viðskiptalífinu.

Auk þessa miðlar sjóðurinn þekkingu á sviði hönnunar og arkitektúrs í samstarfi við aðra aðila í faginu, eftir því sem við á. Hönnunarsjóði Auroru er þannig ætlað að styðja við bak efnilegra hönnuða, efla grasrótarstarf í hönnun og vera vettvangur hugmynda og skapandi hugsunar í greininni. Hönnunarsjóðurinn var stofnaður 13. febrúar 2009 af Auroru Velgerðarsjóði, sem veitti til hans 25 milljónum í þrjú ár, eða alls 75 milljónum. Í lok þess tímabils var úthlutað til hans 75 milljónum að nýju til þriggja ára, eða til loka ársins 2014.

Hönnunarsjóður Auroru hefur styrkt og starfað með fjölbreyttum hópi hönnuða og arkitekta auk aðstandendum hönnunarviðburða, t.d. HönnunarMars Hönnunarmiðstöðvar Íslands. Sjóðurinn hefur einnig lagt nokkra áherslu á viðskiptaráðgjöf til hönnuða, auk sérstakra starfsreynslustyrkja fyrir nýlega útskrifaða hönnuði.

Hönnunarsjóður Auroru á systursjóð á sviði tónlistar sem er Kraumur tónlistarsjóður, einnig stofnaður af Auroru Velgerðarsjóði. Sjóðirnir tveir deila húsnæði og hugmyndum í gamalli sælgætisverksmiðju við Vonarstræti 4b, Reykjavík.
















Yfirlit



eldri fréttir