Barnabókin Frerk, du Zwerg! (Bergur dvergur), eftir þýska rithöfundinn Finn-Ole Heinrich með myndskreytingum Ránar Flygenring, hlaut þýsku barnabókaverðlaunin í ár. Verðlaunin voru afhent á Bókasýningunni í Frankfurt, sem haldin var 10.-14 október s.l.
Þýsku barnabókaverðlaunin hafa verið veitt árlega síðan 1956 og eru á
meðal virtustu barnabókmenntaverðlauna þar í landi. Dómnefndin er skipuð
gagnrýnendum og bókmenntasérfræðingum og veitir hún verðlaun í fjórum
flokkum: myndabóka, barnabóka, unglingabóka og rita almenns efnis.
Frerk, du Zwerg! hlaut verðlaun í flokki barnabóka.
Bókin fjallar um dreng að nafni Frerk sem sökum smæðar og máttleysis er utanveltu í skólanum sínum. Á meðan háðsglósurnar dynja á honum í skólanum gerjast í huga hans villtar hugsanir, skrautleg orð og draumur um úfinn hund. Dag einn tekur líf Frerks miklum stakkaskiptum þegar hann finnur undarlegt egg sem af hendingu klekst út í vasa hans.
Í umsögn dómnefndarinnar um bókina segir að frásögnin, prentverkið og
myndskreytingarnar vinni einstaklega vel saman í verkinu. Rán Flygenring
er hrósað sérstaklega fyrir frakkar myndskreytingarnar sem rími vel við
innihald og boðskap bókarinnar, sem kallar á stjórnleysi, hugrekki og
sjálfstraust.
Hönnunarmiðstöðin óskar Rán innilega til hamingju með verðlaunin!