Fréttir

8.11.2012

Samkeppni | Opnunaratriði Vetrarhátíðar í Reykjavík 2013



Höfuðborgarstofa, Orkusalan og Hönnunarmiðstöð Íslands standa fyrir samkeppni um opnunaratriði Vetrarhátíðar í Reykjavík 2013.

Verkefnið

Að vekja athygli og ánægju íbúa Reykjavíkurborgar og gesta hennar með því að hanna opnunaratriði Vetrarhátíðar í Reykjavík, fimmtudaginn 7. febrúar 2013, á fjölförnum en óvæntum og spennandi stað í borgarrýminu. Sóst er eftir útiverki sem höfðar til almennings og felur í sér upplifun, gagnvirkni og gleði.

Markmið

Öflugt menningarlíf eykur lífsgæði borgarbúa. Markmið verkefnisins er að styrkja Reykjavík sem krafmikla og skapandi borg sem einkennist af lifandi og spennandi umhverfi. Þar kemur að mikilvægi Vetrarhátíðar í Reykjavík en opnunaratriði hátíðarinnar á fjölförnum stað í borginni er liður í því að auka ánægju og upplifun borgarbúa í vetrarmyrkrinu.

Sóst er eftir hverskonar opnunarverki með tengingu við rafmagn. Hugsa þarf verkið fyrir almenningsrými utandyra. Listaverkið þarf auk þess að geta staðið þá daga sem Vetrarhátíð stendur yfir og þarf að huga að því við efnisval og val á tæknibúnaði. Nærvera verksins má vera fyrirferðamikil í rými og snerta skynfæri borgarbúa á mismunandi vegu. Mikill kostur er ef verkið felur í sér einhverskonar gagnvirkni og bíður þannig upp á þátttöku borgaranna.

Fyrir hverja
Samkeppnin er opin öllum hönnuðum, arkitektum, myndlistamönnum, tónlistarmönnum, ljósamönnum, rafmagnsverkfræðingum eða öðrum þeim sem vinna með rafmagn og list í einhverju formi. Hvatt er til samstarfs milli ólíkra aðila og/eða listgreina. Miðað er við að höfundur/höfundar tillögu sem dómnefnd velur til útfærslu verði ráðinn til verksins.

Verðlaunafé

Verðlaunaféð er 400.000. Greitt er fyrir þá tillögu sem valin verður í fyrsta sæti. Auk þess verður gerður samningur við vinningshafa um framkvæmd hugmyndarinnar, fær hann 1,4 milljón króna til verksins og þarf allur kostnaður við verkið að rúmast innan þess ramma.

Umsóknarferlið

Áhersluatriði
Við úrvinnslu innsendra tillagna mun dómnefndin m.a. leggja áherslu á eftirfarandi atriði:
• Að verkið sé heildrænt og frumlegt og fari vel í því rými sem tillaga er gerð um
• Að verkið endurspegli upplifun, gagnvirkni og gleði.
• Að framleiðsla verksins rúmist innan þess tímaramma sem settur hefur verið
• Að kostnaðaráætlun við framkvæmd sé raunhæf og hagkvæm

Mikilvægur þáttur í vali dómnefndar á vinningstillögu er áætlaður framkvæmdarkostnaður. Upphæð þess framkvæmdarfés sem lagt verður til verksins er 1,4 milljón króna og þarf allur kostnaður við uppsetningu og framkvæmd verksins að rúmast innan þess fjárhagsramma.

Skil gagna
Þátttakendur skulu skila eftirfarandi keppnisgögnum:
• Skissum/teikningum af verki og ljósmyndum af staðsetningu verks í borgarrýminu
• Greinagóðri lýsingu á hugmynd, efnisvali og búnaði eftir því sem við á
• Fjárhagsáætlun sem tekur til allra verkþátta og kostnaðarliða verkefnisins
• Tíma- og verkáætlun

Tillögum skal skila í lokuðu umslagi merktu „Vetrarhátíð 2013“ í Hönnunarmiðstöð Íslands, Vonarstræti 4b, 101 Reykjavík, fyrir kl. 12.00, föstudaginn 16. nóvember 2012. Í umslaginu skal vera annað lokað umslag merkt dulnefni en inni í því þarf rétt nafn höfundar, heimilisfang, netfang og símanúmer að koma fram.

Tillögum skal skila útprentuðum á A4 blaði í lit (hámark 5 síður) og á pdf-formati á diski. Miðað er við að dómnefnd skili niðurstöðum 30. nóvember 2012 og að tilkynnt verði um úrslit stuttu síðar.

Dómnefnd
Arnar Geir Ómarsson, grafískur hönnuður,
Sif Gunnarsdóttir, Höfuðborgarstofa
Guja Dögg Hauksdóttir, candarch. arkitekt FAÍ

Með afhendingu á tillögu í samkeppni, telst þátttakandi samþykkja dómnefnd og keppnisgögn og að hann muni virða niðurstöðu dómnefndar. Farið verður með öll gögn sem trúnaðarmál. Dómnefndin áskilur sér rétt til að hafna öllum tillögum.

Keppnisritari

Ritari keppninnar er Hörður Lárusson. Fyrirspurnir þurfa að berast fyrir 22. október 2012 á veffangið samkeppni@honnunarmidstod.is. Öllum spurningum verður svarað og svörin birt á heimasíðu Hönnunarmiðstöðvar www.honnunarmidstod.is þann 26. október 2012.

Útgáfa

Sem verkkaupi mun Höfuðborgarstofa og Orkusalan kynna vinningstillöguna í fjölmiðlum þar sem höfundar verður getið og samstarfsfólk hans. Verkkaupi mun öðlast sýningarrétt af verðlaunaðri tillögu í 18 mánuði frá frumsýningardegi. Þar að auki má verkkaupi nýta verkefnið í kynningu á starfsemi sinni svo framarlega sem verkefnið er ekki slitið úr samhengi.

Um Vetrarhátíð

Reykjavíkurborg hefur haldið Vetrarhátíð árlega frá árinu 2002. Hún fagnar ljósi og vetri með dagskrá sem tengist menning og listum, orku og atvinnulífi, félags- og skólastarfi, útivist og íþróttum, umhverfi og sögu. Hátíðin lýsir upp vetrarmyrkrið í febrúar með viðburðum og uppákomum af ýmsu tagi, stórum sem smáum, og gefur borgarbúum og gestum tækifæri til að taka þátt í fjölbreyttri dagskrá sér að kostnaðarlausu.

Vetrarhátíð verður að þessu sinni haldin dagana 7. – 10. febrúar 2013 eða frá fimmtudegi til sunnudags. Yfirskrift hátíðarinnar er Magnað Myrkur og endurspeglar það anda hennar sem er vetrarmyrkrið og hvernig fjölbreyttir viðburðir hátíðarinnar lýsa það upp. Fastir liðir Vetrarhátíðar eru Safnanótt og Heimsdagur barna og nú einnig Sundlauganótt sem haldin var í fyrsta sinn á Vetrarhátíð 2012.

Nánari upplýsingar www.honnunarmidstod.is


Spurning og svar:

Spurning: Ég er með hugmynd að atriði en í henni felst lifandi leikur, söngur og tónlist. Ég las á heimasíðu hönnunarmiðstöðvar að verkkaupi öðlist sýningarrétt af tillögunni 18 mánuði eftir frumsýningu og datt mér þá í hug að spyrja hvort það væri yfir höfuð í boði að vera með "live performance"? Það væri reyndar áhugavert að gera 18 mánaða langan gjörning en ég er ekki viss um að margir séu nógu geðveikir til þess að taka þátt í slíku listaverki.

Svar: Það er í boði að vera með „life performance“. 18 mánaða réttur þýðir ekki að atburðurinn skuli fara fram í 18 mánuði heldur að kaupandi þ.e. Orkusalan í þessu tilviki, megi nýta verkið í kynningarefni sínu í 18 mánuði eftir atburðinn. Þá er um að ræða upptökur, ljósmyndir o.fl. en eftir 18 mánuðina þarf að greiða fyrir birtingarétt.



















Yfirlit



eldri fréttir