Fréttir

9.10.2012

Úrslit | Samkeppni um götugögn



Tilkynnt var um úrslit í hönnunarsamkeppni um hönnun hjólastæða, hjólaskýla og annarra hjólagagna í Reykjavíkurborg þann 3. október s.l. Reykjavíkurborg og Hönnunarmiðstöð Íslands stóðu að samkeppninni í samstarfi við Arkitektafélag Íslands. Alls bárust 22 frumlegar og skemmtilegar tillögur að hjólagögnum í samkeppnina en tvær tillögur deildu með sér fyrsta sætinu.

Annars vegar varð fyrir valinu tillaga Sigrúnar G. Halldórsdóttur (upphafsmynd fréttar) en í umsögn dómnefndar um tillöguna segir að form hjólastands sé fallegt og sígilt, framsetning i borgarumhverfi eftirtektarverð og sannfærandi. Hjólaskýlið sé látlaust og hafi sterka ímynd.

Hin tillagan (mynd hér að ofan) sem varð fyrir valinu í fyrsta sæti var frá Arkís Arkitektum en það var Birgir Teitsson arkitekt sem hannaði hana og Sveinn Einarsson tækniteiknari var honum til aðstoðar við útfærsluna. Dómnefnd segir tillöguna metnaðarfulla með mörgum góðum hugmyndum en einnig sé góð grein gerð fyrir útfærslum og tæknilegum lausnum. Færanlegur hjólastandur sé sérstaklega áhugaverður og rúmi mörg hjól.

Dómnefnd skipuðu Pálmi Freyr Randversson M.Sc Urban Design en hann var einnig formaður, Margrét Leifsdóttir arkitekt, Kristin Soffía Jónsdóttir, varaformaður umhverfis- og samgönguráðs, Egill Sv. Egilsson iðnhönnuður og Hermann Georg Gunnlaugsson, landslagsarkitekt.

Nánari upplýsingar og dómnefndarálit á öllum innsendum tillögum má finna á reykjavik.is.
















Yfirlit



eldri fréttir