Fréttir

25.9.2012

Handverkskaffi í Gerðubergi | Spjaldanna á milli Spjaldvefnaður: Hið forna handverk



Á handverkskaffinu í október mun Ólöf Einarsdóttir myndlistarkona kynna okkur hið forna handverk spjaldvefnað. Miðvikudaginn 3. október 2012 kl. 20.00 í Menningarmistöðinni Gerðubergi. Ókeypis aðgangur.

Handverkskaffi í Gerðubergi hóf göngu sína haustið 2008. Handverkskaffi er haldið fyrsta miðvikudagskvöld hvers mánaðar. Markmiðið með þessum kvöldum er að bjóða upp á notalega kvöldstund þar sem gestir geta fengið sér kaffi og með því, spjallað og kynnst spennandi handverki.

Boðið er upp á stuttar skemmtilegar kynningar og stundum sýnikennslu, allt eftir viðfangsefni kvöldsins. Handverkskaffið hefst kl. 20.00 og stendur til kl. 22.00
Nánari upplýsingar hjá Hólmfríði Ólafsdóttur, verkefnastjóra. Sími: 5757702 eða 868-1851.
Netfang: holmfridur.olafsdottir@reykjavik.is

Spjaldvefnaður
Spjaldvefnaðurinn er vefnaðaraðferð sem tíðkaðist víðsvegar um landið fyrr á öldum. Eins og nafnið gefur til kynna eru spjöld notuð til verksins, ferhyrnd, u.þ.b. 10 cm á hvern veg og eru fjögur göt á hverju spjaldi. Bönd eru ofin með spjaldvefnaði og ákvarðast breidd bandanna á fjölda spjaldanna. Spjaldvefnaðurinn er ævagamalt handverk sem barst hingað til lands með landnámi en á sér miklu lengri sögu. Fundist hefur spjaldvefnaður í Egyptalandi sem er frá ca. 945 f.kr. og vitað er að handverkið þekktist í Kína fyrir u.þ.b. 5000 árum. Stiklað verður á sögulegum þáttum spjaldvefnaðar og kynntar nokkrar aðferðir. Gestum gefst tækifæri á að prófa að vefa. Ólöf Einarsdóttir útskrifaðist úr Textíldeild Myndlista og handíðaskóla Íslands 1985. Hún hefur unnið að listsköpun síðan og einkum notað spjaldvefnað í verk sín, bæði veggmyndir og rýmisverk.

Ólöf hefur haldið nokkrar einkasýningar auk þess að hafa tekið þátt í fjölda samsýninga hér heima og erlendis. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Ólafar www.internet.is/ollaeinars

Sýningin Ummyndun

Á efri hæð Gerðubergs stendur fyrir sýningin Ummyndun en þar tefla þær systur Ólöf og Sigrún Einarsdætur saman textíl og gleri í sama verkinu. Þær leggja áherslu á að jafnvægi ríki, þannig að efnin bæti hvort annað upp í stað þess að slást eða yfirgnæfa hvort annað. Oft er eins og til verði þriðji miðillinn. Ólöf og Sigrún sækja gjarnan innblástur í náttúru Íslands og ekki síst í hin ótemjanlegu innri öfl hennar.
Sýningin stendur til 28. október. Sýningarnar eru opnar virka daga frá 11-17 og helgar frá 13-16.

http://www.gerduberg.is/
















Yfirlit



eldri fréttir