Fyrir stuttu opnaði sýning í Louisiana safninu í Kaupmannahöfn sem ber yfirskriftina “New Nordic – Arkitektúr og sérkenni” og þar er leitast við að veita gestum innsýn inn í sérkenni norræns arkitektúrs. Mikið hefur verið lagt í sýninguna og eru gagnrýnendur í Danmörku á einu máli um að hér sér á ferðinni stórkostleg og fræðandi sýning. Kastljósinu er annars vegar beint að stílbrigðum, efnisvali og umhverfi arkitektsins og hins vegar að borgarskipulagi á Norðurlöndum og hvernig það endurspeglar og hefur áhrif á samfélag og menningu þjóðar. Fimm arkitektastofum frá Norðurlöndunum var boðin þátttaka í sýningunni og þær beðnar um að byggja einn sýningarskála hver sem bæri staðarháttum, sérkennum og reynsluheim þeirra vitni. Sýning er mjög merkileg fyrir þær sakir að að hún gefur greinargóða mynd af samnorrænum stefum í arkitektúr landanna en greinir jafnframt frá sérkennum hvers lands og hvernig umhverfi og þjóðhættir móta stíl.
Studio Granda var boðin þátttaka fyrir Íslands hönd og hönnuðu þau íslenska sýningarskálann. Hann er samsettur úr tveimur bárujárnsskeljum sem umlykja rautt hraunberg og innganga í skálann er um 60 cm vítt op sem skapar mikla nálægð við efni og veggi skálans. Gólf er stráð muldu hraunbergi sem snarkar og brestur í þegar gengið er um skálann.
"Ísland er á jaðrinum og hefur úr fáum valkostum að velja þegar kemur að náttúrulegum byggingarefnum en við fáum mikið af efnivið innfluttan frá skandinavíu. Menningarlegar rætur landsins eru þær sömu og hinna Norðurlandanna en afskekkt staðsetning þess og stutt hönnunarsaga hefur skapað umhverfi sem einkennist af óheftri og fjölbreyttri fagurfræði.
- Steve Christer, Studio Granda um íslenskan arkitektúr í norrænu samhengi
Aðrir þátttakendur eru arkitektastofurnar Johan Celsing frá Svíþjóð, Jarmund/Vigsnæs frá Noregi, Lassila Hirvilammi frá Finnlandi og Lundgaard & Tranberg frá Danmörku.
Við inngang sýningarinnar hafa 30 stofur og einstaklingar verið fengnir til þess að gefa innsýn í menningu hverrar þátttökuþjóðar. Aðilarnir voru beðnir um að túlka sérkenni sinnar þjóðar hver á sinn hátt og er um að ræða vídeó, innsetningar, nytjahluti, bækur og fleira sem mætir gestum við inngöngu á sýninguna. Meðal þeirra sem eiga verk á sýningunni eru ARKIS, Arkitema, Basalt Arkitektar, Studio Granda, arkitektarnir Ola Steen og Kolbrún Ragnarsdóttir, Ólafur Elíasson listamaður, Pálmar Kristmundsson arkitekt, hönnunarteymið Fanney Antonsdóttir og Dögg Guðmundsdóttir, Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir hönnuður, Kristinn E. Hrafnsson listamaður, Sruli Recht hönnuður og Hallgrímur Helgason rithöfundur.
Íslensk hönnun í norrænu samhengi
“Íslensk hönnun er loksins að skapa sér það rými og þann sess sem hún á skilið innan skandinavískrar hönnunarhefðar”
– Mikko Kalhama, framkvæmdastjóri Design Forum Finland
Þátttaka Íslendinga í þessari sýningu er mjög mikilvæg fyrir framþróun íslenskrar hönnunar og arkitektúr. Ímynd skandinavíu er samofin hönnun og arkitektúr og mikið er lagt í alla umgjörð og vel er hlúð að hönnunarsamfélaginu á Norðurlöndum. Íslensk hönnun hefur jafnan ekki talist hluti af skandinavískri hönnunarhefð og verið minna áberandi á alþjóðavettvangi en hin Norðurlöndin. Því er mikil hagur af því fyrir Ísland að geta sameinast þeim á sýningu og borið sig saman við þau á stærra sviði. Íslenskum hönnuðum gefst þar með tækifæri á að ná til stærri hóps en jafnframt skilgreina sérkenni íslenskrar hönnunar innan norrænnar hönnunarhefðar. Á síðastliðnum árum hafa erlendar hönnunarhátíðir, tímarit og fyrirtæki litið í auknum mæli til Íslands í leit að nýbreytni í hönnun og því er mikilvægt að halda áfram að koma íslenskri hönnun á framfæri hérlendis sem erlendis.
Aðrir þátttakendur á sýningunni eru m.a. Bjarke Ingels Group, Gehl Architects, Snöhetta og SLA.
Sýningin stendur til 21. október 2012. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Louisiana safnsins hér og viðtöl við þátttakendur má finna hér.
*Sýning hefur verið áberandi í dönskum fjölmiðlum og hlotið frábærar viðtökur gagnrýnenda, þar á meðal fullt hús stjarna hjá Berlingske Tidende og Politiken.
**Louisiana er meðal virtari nútímalistasafna í Evrópu og hefur skapað sér serstöðu á Norðulöndunum sem ein af þungamiðjum menningar, lista, hönnunar og arkitektúrs.
Sýningarskáli Stúdíó Granda frá Íslandi
Sýningarskáli Johan Celsing frá Svíþjóð
Sýningarskáli Lassila Hirvilammi frá Finnlandi
Sýningarskáli Jarmund/Vigsnæs frá Noregi,
Sýningarskáli Lundgaard & Tranberg frá Danmörku.