Fréttir

7.8.2012

Chuck Mack undirritar samning við Design House Stockholm




Íslensk-ameríski hönnuðurinn Chuck Mack hefur undirritað samning við sænska fyrirtækið Design House Stockholm um framleiðslu á skrifborðinu Fákar. Borðið verður aðalsmerki skrifstofuhúsgagnalínu fyrirtækisins fyrir heimili. Í haust hefst nánari vöruþróun og borðið kemur opinberlega á markað fyrri hluta árs 2014.

Leiðir Chuck Macks og Design House Stockholm lágu saman á DesignMatch sem fer fram ár hvert í tengslun við HönnunarMars. Hönnun hans vakti athygli Anders Färdig eiganda og forstjóra Design House Stockholm og Piu Karlsson framkvæmdastjóra vöruþróunar fyrirtækisins.

„Kaupstefna Hönnunarmiðstöðvar og Norræna hússins, DesignMatch, hefur á fáum árum sannað tilveru sína. Þetta módel sem við notum virðist vera nokkuð einstakt og bæði kaupendur og hönnuðir kunna vel við fyrirkomulagið. Þessi samningur er mjög gott dæmi um það og merkilegur fyrir margra hluta sakir, ekki síst fyrir hve stórt og áhrifamikið Design House Stockholm er í raun”, segir verkefnastjóri HönnunarMarsins Greipur Gíslason.

Chuck Mack handsmíðar ætíð prótótýpur verka sinna og einnig handsmíðar hann húsgögn eftir pöntunum. Chuck er hönnuður hins þekkta Giraffi stóls.  Árið 2008 hlaut hann hin virtu Red Dot verðlaun fyrir borðið Table 29 sem er samsett á einstakan hátt. Chuck Mack tekur reglulega þátt í HönnunarMars.

Design House Stockholm er fyrirtæki sem sérhæfir sig í norrænni samtímahönnun á húsgögnum, ljósum, fatnaði og borðbúnaði.

www.chuckmackdesign.com
www.designhousestockholm.com
www.designmarch.is

















Yfirlit



eldri fréttir