Á ráðstefnunni Make It Happen er lögð áhersla á samtal um möguleikana sem felast í uppbyggingu skapandi samfélags, þar sem skapandi verkferlar, nýsköpun og staðbundnar auðlindir mætast. Meðal þeirra sem koma fram eru Alexander von Vegesack, Max Lamb, Merilyn Keskula og Halldór Gíslason.
Fyrsti hluti ráðstefnunnar fjallar um áhrif og mikilvægi þess að stutt sé við menningarstarf í fámennum samfélögum. Síðar verður rætt um lista-, hönnunar- og menningarverkefni á jaðarsvæðum og að lokum verða möguleikar og aðferðir til að vinna staðbundið en þó í alþjóðlegu tengslaneti metnir, sem þáttur í mótun næstu skrefa í innleiðingu skapandi hugsunar.
Ráðstefnan fer fram á Egilsstöðum, Seyðisfirði og Stöðvarfirði og hægt er að velja um mismikla þátttöku í ráðstefnunni fyrir mismunandi verð.
Make It Happen er haldin í tilefni af 10 ára afmæli Menningarráðs Austurlands og til að fagna 10 ára menningarsamstarfi við Vesterålen í Noregi.
Ráðstefnan er einnig lokaviðburður Evrópuverkefnisins Creative Communities sem er unnið með samstarfsaðilum í Svíþjóð, Noregi og Danmörku.
Hægt er að skrá sig til 1. september 2012 á heimasíðu ráðstefnunnar
hér. Þar er einnig að finna nánari upplýsingar um ráðstefnuna.