Gullverðlaunin eru þau fyrstu sem íslenskur hönnuður hlýtur í keppninni en hún er sú stærsta og virtasta á sviði grafískrar hönnunar og auglýsingagerðar í Evrópu. Að auki hlutu Reykjavík Letterpress og samstarfshópur nokkurra hönnuða, sem vann verkefni fyrir RIFF, viðurkenningar fyrir verk sín.
Myndskreytingar Sigga Eggertssonar hlutu gullverðlaun í flokkinum "myndskreytingar og ljósmyndun". Viðurkenningar hlutu Reykjavík Letterpress í flokkinum "grafísk hönnun" og Þorleifur Gunnar Gíslason, Geir Ólafsson, Jón Ingi Einarsson, Magnús Hreggviðsson, Hörður Ellert Ólafsson og Tryggvi Gunnarsson fyrir verk sitt Filmünd sem þeir unnu fyrir RIFF 2011 í opnum flokki.
ADC*E eru samtök félaga evrópskra hönnuða og auglýsingagerðarfólks og vinningsverk taka þátt í alþjóðlegri samkeppni, The Cup, þar sem það besta í grafískri hönnun og auglýsingagerð í heiminum er verðlaunað ár hvert. Einu sinni áður hafa íslenskir hönnuðir hlotið verðlaun í þeirri keppni, en það voru Snæfríð Þorsteins og Hildigunnur Gunnarsdóttir fyrir bókahönnun á Flora Islandica sem gefin er út af Crymogeu bókaútgáfu og var valin best hannaða bók heims árið 2010.
Verk Sigga, sem unnu til verðlaunanna og hann vann í samstarfi við Jónsson & Le´Macks auglýsingastofu fyrir fyrirtækjaþjónustu Landsbankans, hlutu heiðursverðlaun í samkeppni Félags íslenskra teiknara sem veitt voru á HönnunarMars og sýnd í Hafnarborg, en keppnin var haldin ellefta sinni og hefur fest sig í sessi á Íslandi. Í umsögn um verk Sigga sagði aðaldómnefnd í FÍT keppninni : "Siggi sýnir óvenjulegt úthald í þróun á þekktri aðferðafræði sem hann nær að gera að sinni. Hann þroskar stíl sem er í senn persónulegur, hlýr og alþýðlegur. Siggi dregur dám af umhverfi sínu hvort sem það er íslenskt sveitaumhverfi, miðbær Reykjavíkur eða evrópskar stórborgir. Framsetning og litanotkun eru afar trúverðugar."
Hann hlaut að auki verðlaun í vor í samkeppni um veggspjald Listahátíðar í Reykjavík og er verkið einkennismynd Listahátíðar þetta árið og prýðir nú Reykjavíkurborg.
Nýjasta verk Sigga Eggertssonar er sérhannað útiverk fyrir Hönnunarmiðstöð Íslands og er unnið út frá gömlum frímerkjun og vísar Siggi í verkinu meðal annars til mikilvægi góðra samskipta og tengsla, en einnig hlutverks hönnunar sem afls til breytinga í samfélaginu og aðferðafræði hönnunar, sem meðal annars byggir á næmi fyrir umhverfinu og efnivið hvers verkefnis, breytingum og túlkun, tilraunum, ferli og samhengi. Verkið var á dögunum málað á gafl Hönnunarmiðstöðvar og setur nú svip á umhverfi hennar og blasir við gestum og gangandi í Lækjargötu og Vonarstræti, en Hönnunarmiðstöð er til húsa gegnt Iðnó.
Verðlaun Art Directors Club Europe (ADC*E) voru nú veitt í 21. sinn. Þau eru veitt árlega og eru eini vettvangurinn þar sem öllu því besta í grafískri hönnun og auglýsingagerð í Evrópu eru gerð skil á einum stað og er keppnin dæmd af um 50 fagaðilum alls staðar að úr Evrópu. Félag íslenskra teiknara er aðili að ADC*E og heldur utanum íslenska þátttöku í keppninni, auk þess að standa fyrir FÍT keppninni.
www.siggieggertsson.com
www.adceurope.org
www.letterpress.is
www.riff.is
www.jl.is
www.landsbankinn.is