Fréttir

8.6.2012

Úrslit í fangelsissamkeppni



Úrslit í samkeppni um nýtt fangelsi á Hólmsheiði voru kynnt við hátíðlega athöfn í Þjóðmenningarhúsinu þriðjudaginn 5. júní.

Fyrstu verðlaun í samkeppninni fékk tillagan frá arkitektastofunni Arkís. Höfundar hennar eru Björn Guðbrandsson og Arnar Þór Jónsson arkitektar og ráðgjafar voru Birgir Teitsson, Egill Guðmundsson og Friðrik Friðriksson arkitektar. Önnur verðlaun hlaut tillaga frá Arkitektur.is og tillögu Teiknistofunnar Tröð ehf. var veitt þriðju verðlaun. Alls bárust 18 tillögur í keppnina, átta frá innlendum aðilum og tíu erlendis frá.

Í niðurstöðu dómnefndar um verðlaunatillöguna segir að tillagan sé mjög góð og svari einstaklega vel áherslum og kröfum samkeppnislýsingar. Einkum sé gæsluvarðhaldsþættinum gerð mjög góð skil, sem og aðalvarðstofu og miðlægum rýmum. „Þá eru aðstæður við aðalinngang og tengsl heimsóknaraðstöðu og viðtalsrýmis fyrir utanaðkomandi ráðgjafa vel leyst. Heildaryfirbragð byggingarinnar er mjög áhugavert og tillagan gefur fyrirheit um einfalda, notadrjúga og látlausa byggingu sem samræmist stefnu Fangelsismálastofnunar um örugga og vel skipulagða afplánun.“

Tillögurnar verða sýndar á Háskólatorgi síðar í júní.

Fleiri upplýsingar um samkeppnina og niðurstöður hennar má finna á heimasíðu Framkvæmdasýslu ríkisins og dómnefndarálit má lesa hér.
















Yfirlit



eldri fréttir