Fréttir

30.5.2012

Úthlutun | Aurora hönnunarsjóður



Hönnunarsjóður Auroru úthlutaði þ. 31. maí tíu milljónum króna til hönnunarverkefna og er áherslan að þessu sinni mest á fatahönnun. Sjóðurinn hefur leitast við að styrkja framúrskarandi hönnuði með heilsteyptar viðskiptahugmyndir og skýra framtíðarsýn. Að þessu sinni bárust um 80 umsóknir af öllum sviðum hönnunar og báru umsóknirnar þess merki að mikil gróska og framþróun er að eiga sér stað á sviði hönnunar á Íslandi.

Þeir hönnuðir sem hlutu styrk eru:

Fatalínan Ostwald Helgason (2 milljónir) Ingvar Helgason og Susanne Ostwald, fatahönnuðir fyrir þátttöku í tískuvikunni í New York í september 2012.

Fatalínan EYGLO (1.8 milljón) Eygló Margrét Lárusdóttir, fatahönnuður fyrir áframhaldandi vöruþróun og markaðssókn erlendis.

Barnafatalínan As we grow (1.8 milljón) María Ólafsdóttir, Guðrún Ragna Sigurjónsdóttir og Gréta Hlöðversdóttir fyrir kynningu og markaðssetningu erlendis.

Vöruhönnunarverkefnið Húsgögn (1.5 milljón) Brynjar Sigurðarson, vöruhönnuður fyrir frekari vöruþróun m.a. vegna sýningar í Galleri Kreo, París.

Krads arkitektar vinnustofan PLAYTIME (1.2 milljón) Til frekari þróunar á vinnustofu fyrir arkitektanema, hérlendis og erlendis, í samstarfi við hinn heimsfræga arkitekt Viny Maas, LEGO ofl. Vinnustofurnar virkja sköpunargleði, skipulagshæfni og rýmisgreind þátttakenda.

Valgerður Pétursdóttir, starfsnám hjá AUGE (500 þúsund) Starfsnám í listrænni stjórnun og grafískri hönnun hja AUGE, Ítalíu.

HönnunarMars – erlent kynningarefni og blogg (1.2 milljón) Áframhaldandi samstarf vegna uppbyggingar HönnunarMars hátíðarinnar og kynningar á íslenskri hönnun erlendis.


Um er að ræða fyrstu úthlutun úr sjóðnum á þessu ári, en þá áttundu frá því Hönnunarsjóðurinn hóf starfsemi sína í byrjun árs 2009. Aftur verður úthlutað úr sjóðnum á haustmánuðum 2012.

Nánari upplýsingar um hönnuðina sem fá úthlutað úr sjóðnum að þessu sinni:

ostwaldhelgason.com/
aswegrow.is/
eyglocollection.com/
www.biano.is/
krads.info/
blog.icelanddesign.is/


Hönnunarsjóður Auroru hefur það að markmiði að skjóta styrkum stoðum undir íslenska hönnun með því að veita hönnuðum og arkitektum fjárhagslega aðstoð. Markmið hans er að styrkja hönnuði til að koma sjálfum sér, hugmyndum sínum, vörum og verkefnum á framfæri og aðstoða við vöruþróun og markaðssetningu hérlendis og erlendis. Einnig getur sjóðurinn haft frumkvæði að sjálfstæðum verkefnum sem þjóna tilgangi hans svo sem að standa að viðurkenningum eða sýningum og vera samstarfsvettvangur hönnuða og aðila úr atvinnu- og viðskiptalífinu. Auk þessa miðlar sjóðurinn þekkingu á sviði hönnunar og arkitektúrs í samstarfi við aðra aðila í faginu, eftir því sem við á. Hönnunarsjóði Auroru er þannig ætlað að styðja við bak efnilegra hönnuða, efla grasrótarstarf í hönnun og vera vettvangur hugmynda og skapandi hugsunar í greininni.
Hönnunarsjóðurinn var stofnaður 13. febrúar 2009 af Auroru Velgerðarsjóði, sem veitti til hans 25 milljónum í þrjú ár, eða alls 75 milljónum. Hönnunarsjóður Auroru hefur styrkt og starfað með fjölbreyttum hópi hönnuða og arkitekta auk aðstandendum hönnunarviðburða, t.d. HönnunarMars Hönnunarmiðstöðvar Íslands. Sjóðurinn hefur einnig lagt nokkra áherslu á viðskiptaráðgjöf til hönnuða, auk sérstakra starfsreynslustyrkja fyrir nýlega útskrifaða hönnuði.
Hönnunarsjóður Auroru á systursjóð á sviði tónlistar sem er Kraumur tónlistarsjóður, einnig stofnaður af Auroru Velgerðarsjóði. Sjóðirnir tveir deila húsnæði og hugmyndum í gamalli sælgætisverksmiðju við Vonarstræti 4b, Reykjavík.

Nánari upplýsingar veitir Hlín Helga Guðlaugsdóttir frkv.stj. Hönnunarsjóðs Auroru, s. 772-1200.
hlin@honnunarsjodur.is
www.honnunarsjodur.is

















Yfirlit



eldri fréttir